Viðskipti innlent

Rúm­lega hundrað þúsund far­þegar flugu með Play

Bjarki Sigurðsson skrifar
Birgir Jónsson er forstjóri Play.
Birgir Jónsson er forstjóri Play. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play flutti tæplega 109 þúsund farþega í ágúst. Um er að ræða sambærilegan fjölda og í júlí en félagið segist hafa styrkt stöðu sína á mörkuðum með afgerandi hætti í sumar.

Sætisnýting Play var ágæt í sumar en í júní var hún 79,2 prósent, 87,9 prósent í júlí og 86,9 prósent í ágúst. Í tilkynningu frá Play segir að bókunarstaðan fyrir haustið sé góð, talsvert betri en á sama tíma á síðasta ári. Árangur flugfélagsins í sumar megi þakka fagmennsku og yfirgripsmikilli reynslu flugrekstrarteymisins.

„Eftir hraða en örugga uppbyggingu með fjölda nýrra áfangastaða, innleiðingu tengiflugsleiðakerfis og móttöku flugvéla er rekstur PLAY loks kominn í fastar skorður. Viðskiptamódelið er orðið að veruleika. Enn og aftur er ég er sannarlega stoltur af starfsfólki Play sem hefur gert þetta mögulegt. Það eru bjartir tímar framundan og bókunarstaðan er sterk,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Í upphafi mánaðar auglýsti Play eftir 150 flugliðum og 55 flugmönnum fyrir næsta vor. Á fyrstu vikunni hafa hátt í þúsund manns sótt um en um er að ræða stærstu ráðningu félagsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×