Skoðun

Laufey Ósk og Friðjón

Bryndís Schram skrifar

Ég veit svo sem, að „Veislan á þakinu, sem aldrei varð“, er nú orðin fræg að endemum – meira að segja í sjálfu réttarkerfinu. Þegar Laufey Ósk byrjaði að ausa úr sér svívirðingum um Jón Baldvin, komst hún svo að orði: „Ég hef heyrt svo margar ljótar sögur um þig, Jón Baldvin“. Merkilegt, segi ég, vegna þess að u.þ.b. hálfu ári seinna var það sjálfur almannatengill Sjálfstæðisflokksins, sem heitir því göfuga nafni Friðjón Friðjónsson, sem notaði sama orðalag, þegar hann auglýsti opinberlega eftir „ljótum sögum“ um Jón Baldvin. Það gerði hann sem slíkur – almannatengill Sjálfstæðisflokksins og formanns hans – á heimasíðu sinni.

Það er vitað, að Sjálfstæðisflokkurinn svífst einskis í ófrægingarherferðum gegn andstæðingum sínum, ef þeim finnst þeir vera hættulegir. þetta hefur meira að segja áunnið sér sérstaka nafngift í vitund almennings: „Skrímsladeildin“. Nýlegt dæmi um þetta var skipulögð aðför á netinu að Katrínu Jakobsdóttur., sem þá var kölluð „Skatta Kata“. Það var svo gleymt og grafið, þegar Katrín gekk til liðs við þá í ríkisstjórn. En þetta er bara pólitík, eins og við þekkjum hana.

Hitt er nýmæli að auglýsa opinberlega eftir rógsögum, sem nota má til að ræna andstæðinga mannorðinu. Þeim hlýtur að þykja mikið við liggja, þótt maðurinn minn hafi hætt í pólitík fyrir meira en aldarfjórðungi.

Það er orðstírinn, sem þarf að eyðileggja.

Hvað sagði ekki vinur okkar, Styrmir Gunnarsson?: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Það er allt jafn ógeðslegt – engar hugsjónir , bara sérhagsmunir“. Kannski fer ég ekki með þetta orðrétt, en þetta er frægasta tilvitnunin í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið. Kannski eru þetta einkunnarorð – áhrínisorð – íslenska lýðveldisins eftir Hrun.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×