Erlent

Dýrasta hafna­bolta­spjald sögunnar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þetta spil seldist á tæpa tvo milljarða á uppboði í dag.
Þetta spil seldist á tæpa tvo milljarða á uppboði í dag. Heritage Auctions

Safnkort af hafnaboltastjörnunni Mickey Mantle seldist í dag á uppboði á 12,6 milljónir dollara, tæpan 1,8 milljarð íslenskra króna. Með sölunni varð spjaldið að dýrasta hafnaboltaspjaldi sögunnar.

Mickey „the Mick“ Mantle er einn allra besti hafnarboltakappi sögunnar en hann spilaði alls 17 tímabil í MLB-deildinni í Bandaríkjunum. Hann lék allan sinn feril fyrir New York Yankees.

Hann var valinn sextán sinnum í stjörnulið deildarinnar og unnu Yankees alls sjö titla með Mantle í herbúðum sínum. Hann var þrisvar sinnum valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar, árin 1956, 1957 og 1962.

Hans fyrsta tímabil í deildinni var árið 1952 og seldist í dag hafnaboltaspil með mynd af Mantle frá því ári á 1,8 milljarð íslenskra króna. Spilið var í næsthæsta gæðaflokki, flokki sem kallast „Mint+9,5“ en sjaldgæft er að finna svo vel varðveitt spil sjötíu árum seinna.

Spilið var í eigu Anthony Giordano sem keypti það árið 1991 fyrir fimmtíu þúsund dollara sem þá var einnig hæsta upphæð sem einhver hafði greitt fyrir hafnaboltaspil. Hann setti spilið strax í læst geymslurými og tók það ekki út fyrr en það var sett á uppboð í dag. Um er að ræða rúmlega 250-falda ávöxtun fyrir Giordano.

„Það að þetta nýliðaspil Mantle sé enn í þessu ásigkomulagi sjötíu árum seinna er í rauninni kraftaverk,“ hefur CNN eftir Chris Ivy sem sá um uppboðið.

Spilið er ekki einungis dýrasta hafnaboltaspil sögunnar, heldur dýrasti íþróttaminjagripur sögunnar. Fyrir daginn í dag var treyja fótboltakappans Diego heitins Maradona sem hann klæddist er hann skoraði með „hendi guðs“ gegn Englendingum á heimsmeistaramótinu í fótbolta árið 1986 dýrasti minjagripurinn. Sú treyja seldist á 9,3 milljónir dollara fyrr á árinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×