Innlent

Eiríkur Guðmundsson borinn til grafar í dag

Jakob Bjarnar skrifar
Eiríkur Guðmundsson hlýtur að teljast einhver eftirtektarverðasti útvarpsmaður sinnar tíðar. Hann verður jarðsunginn í dag.
Eiríkur Guðmundsson hlýtur að teljast einhver eftirtektarverðasti útvarpsmaður sinnar tíðar. Hann verður jarðsunginn í dag. vísir/vilhelm

Menningargeirinn syrgir nú einn sinn allra besta mann. Fjölmiðlar verða ekki samir eftir fráfall Eiríks Guðmundsonar; menningarumfjöllun almennt verður það ekki heldur né sjálfur skáldskapurinn. Ekki verður betur skilið á fjölda minningargreina sem birtast bæði í Morgunblaðinu í dag og á samfélagsmiðlum.

Eiríkur fæddist í Bolungarvík 28. september 1969 en lést í Reykjavík 8. ágúst 2022. Sonur Eiríks er Kolbeinn Orfeus, fæddur 19. mars 2004. Barnsmóðir Eiríks og fyrrverandi sambýliskona er Margrét Kristín Blöndal og stjúpdóttir Vaka Blöndal. Eiríkur var menntaður bókmenntafræðingur, hann sendi frá sér ljóðabækur og skáldsögur en þrátt fyrir lofsamlega dóma um verk hans var það ekki síst einstæð útvarpsmennskan á Rás 1 sem heldur nafni hans á lofti.

„Eiríkur Ómar Guðmundsson var fræðimaður, rithöfundur, skáld, harmonikku- og píanóleikari, söng og dansaði. Ekki síst í þemagleðskap, afmælisfagnaði og öðrum uppákomum samstarfsmanna. Oft. Hann var bjartur svartálfur, Láki jarðálfur, jafnvel Gottfried Leibnitz – allir í senn. Gat glatt og hvatt samstarfsfólk en fyrr en varði brjálað suma þeirra; snúið öllu og öllum á haus með stórkostlegum yfirlýsingum um ágætasta stjórnarfar, menningu, vondar, góðar og framúrskarandi bókmenntir, skipulag, efnahag og ástand í þessum allra besta heimi allra heima,“ skrifa þau Ragnheiður Gyða Jónsdóttir og Ævar Kjartansson samstarfsmenn Eiríks á Ríkisútvarpsins um langa hríð í minningargrein.

Ljóðrænn og óútreiknanlegur

Þau bæta við að pistlar hans um um stöðuna í samfélags-, stjórn- og menningarmálum landsmanna í lista- og menningarþáttum Rásar 1 síðdegis á virkum dögum, fluttir eins og honum einum var lagið, féllu mörgum vel í geð.

„Öðrum var meinilla við efni þeirra og framsetningu. Þessir höfðu betur og sú rödd hans þagnaði. Hann sagði þá tíma skrýtna, skrýtið að mega ekki segja neitt. Áður hefði hann mátt segja allt. Nú væru nýir tímar, ekki góðir. Erfiður biti að kyngja fyrir þann sem sagði útvarpsmann selja sálu sína og gefa allt; augnaráðið, röddina, allt.“

Eiríkur gaf sig allan í störf sín eins og Hermann Stefánsson rithöfundur segir í minningargrein:

Fjölmargir sem nú minnast Eiríks tala um fráfall hans langt fyrir aldur fram sem grátlega sóun.vísir/vilhelm

„Röddin sem rappaði sína póesíu í útvarp breytti útvarpinu sem slíku. Ekki þó þannig að auðveldara hafi orðið að tjá hug sinn: Hugur er margslungið fyrirbæri, þversagnakennt, torrætt, og maður tjáir ekki hug eins og að hella vatni í glært glas,“ segir Hermann. Að Eiríki hafi hvorki verið í nöp við vinstrið, ekki við baráttuhópa þótt hann væri ekki hópsál né heldur var hann sérstaklega fráhverfur einstaklingshyggju hægrisins þótt hann baunaði í allar áttir. 

„Hann vildi vera ljóðrænn og óútreiknanlegur. Vildi skilja heiminn, ekki stökkva á vagna. Hann vildi ögra. Ögrun er eitthvað það allra nauðsynlegasta í mannlegu samfélagi. Sá málstaður sem ekki þolir ögrun er einskis virði. Skenslaus tilvist er leiðinleg, öfugt við Eirík, fjörugan og rómantískan, hræsnislausan, stundum óþolandi en hreinlyndan, og sífrjóan í hugsun, tilbúinn að taka hverju skensi sjálfur,“ skrifar Hermann Stefánsson rithöfundur.

Gjá milli bókmenntavina

Menningarumfjöllun, gagnrýni og viðtöl verða ekki svo glatt greind frá bókmenntunum sjálfum, eins og Roland Barthes benti á. Eiríkur var þekktur fyrir að undirbúa viðtöl sín við rithöfunda og aðra af kostgæfni og útvarpspistlar hans skiptu máli eins og allt sem hefur merkingu og er útfært af hæfileikum og kunnáttu.

„Kannski er það tímanna tákn að hann hafi orðið fyrir opinberum réttarhöldum vegna umfjöllunar um bók í einu af jólabókaflóðunum. Afstaða hans til fagurbókmennta hafði verið túlkuð sem skortur á samlíðan og þar með var fjandinn laus. Þótt tímarnir séu aðrir er eitthvað í réttarhöldunum sem minnir á átökin um módernisma á Íslandi um miðja síðustu öld. Gjáin sem þá myndaðist milli bókmenntavina tekur í það minnsta lengi við,“ skrifar bókmenntafræðingurinn Birna Bjarnadóttir.

Eiríkur í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Þar var hans varnarþing.vísir/vilhelm

Í ýmsum minningargreina, en þær þekja þrjár síður í Morgunblaðinu, er það nefnt að Eiríkur dáðist að verkum David Bowie og Guðbergs Bergssonar, sem segir í einni bóka sinna: „Útrekna menn langar ekki að sýna sínum líkum samstöðu heldur hafa þeir áhuga á öðrum sem útskúfa þeim og þrá að komast í félagsskap þeirra.“

Haukur Ingvarsson, skáld og dagskrárgerðarmaður starfaði með Eiríki í menningarþættinum Víðsjá.

„Eiríkur var mér og mörgum öðrum miklu meira en beittir pistlar sem hann flutti með sinni sérstöku framsögn. Hann hafði fært okkur trú á að bókmenntir, menning og listir væru sjálfsagður hluti af hversdeginum og fullgild leið til að skilja veröldina, greina hana og gagnrýna. Og það væri í lagi að hrífast og reyna að hrífa aðra með sér.“

Kom við kauninn á valdhöfum og áhrifafólki

Í minningargrein Herdísar Kjerulf Þorgeirsdóttur lögfræðings kemur fram að með pistlum sínum í útvarpi hafi Eiríkur komið við kaunin á valdhöfum og áhrifafólki. Og það hafi ekki verið tekið út með sitjandi sældinni að bjóða upp á slíkt:

„Afleiðingar þess taka sinn toll. Eiríkur var ekki vellauðug og heimsfræg rokkstjarna sem gat ögrað samtímanum – heldur starfsmaður á ríkisstofnun sem er hugsanlega á köflum hallari undir kerfishugsun en þau háleitu markmið að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og mismunandi skoðana.“

Á mannamótum lét Eiríkur stundum eins og hann væri ekki þar en var samt aðalmaðurinn.vísir/vilhelm

Guðrún Vilmundardóttir útgefandi bregður upp eftirtektarverðri mynd af Eiríki í minningargrein sinni:

„Ég bar gæfu til þess að gefa út bækur hans, fyrst hjá Bjarti og síðan Benedikt, einstakur höfundur sem var sönn gleði og innblástur að vinna með. Við urðum vinir. Öll mannamót voru skemmtilegri með Eiríki. Hann lét stundum næstum eins og hann væri ekki þar, hallaði sér kannski upp að dyrastaf og hallaði undir flatt, samt aðalmaðurinn í hvítum jakkafötum, jafnvel þegar hann var svartklæddur. Hann lyfti öllum samræðum á æðra plan – með fáum en eiríkslegum orðum. Þegar hann settist við píanóið var samkvæmi fullkomnað.“

Stef í minningargreinunum er það að Eiríkur hafi gefið sig allan í verkefni sín: „Þú fluttir skáldskap, gekkst inn í hann, gafst allt og fórst við þá iðju. Takk fyrir trú á fegurðina, fyrir hjarta, rödd og áhrifamátt,“ segir Soffía Bjarnadóttir rithöfundur.

Baráttan við Bakkus

Eiríkur tilheyrði vinagengi sem myndaðist í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og hélt ávallt hópinn. Einn úr þeim hópi er Einar Falur ljósmyndari. Hann kemur inn á baráttu Eiríks við fíknina.

„Og ekki hefði neinn okkar í myrkustu draumum séð fyrir að við myndum nú gráta Eika fallinn rétt rúmlega fimmtugan fyrir fíkn sem molaði hratt undan honum lífsbrúna. Svo hörmuleg sóun á lífi og hæfileikum. Sama hversu margir tóku höndum saman um að hjálpa.“

Eiríkur hlaut starfslaun listamanna með hléum, til að sinna bókaskrifum og þurfti þá að hverfa frá störfum sínum við Ríkisútvarpið, sem hann taldi ómetanlega menningarstofnun. Þannig voru störf hans þar ekki samfelld.

„Síðustu árin fóru samtöl okkar Eiríks að snúast æ meir um harðnandi baráttu hans við Bakkus. Þessi samtöl tóku oft á. Eiríkur fór undan í flæmingi. Og þegar hann loksins virtist viðurkenna vandann var eins og verkefnið yxi honum í augum. Sjálfur varð ég smám saman máttvana og á síðustu mánuðum pirraður, reiður, vonsvikinn. Eftir erfiðan viðskilnað við Útvarpið síðastliðið haust ætlaði Eiríkur jú að koma aftur. Við vorum búnir að ræða það ítrekað. Já, ég kem! Auðvitað! En hann kom ekki.“ Svo segir Þröstur Helgason dagskrárstjóri Rásar 1 frá í minningargrein sinni.

Að óttast dauðann

Í höfundatali við Eirík á Vísi árið 2018 í tilefni af þá óútkominni bók hans, Ritgerð mín um sársaukann, var hann spurður meðal annars um stöðu rithöfundarins, þá hvort honum beri að leggja orð í belg? Eiríkur segist hafa lagt orð í belg og það hafi einungis gert sér illt. 

Um það hvort drifkraftur skáldskapar geti verið ótti við dauðann, segir Eiríkur:

„Ég óttast dauðann eins og allir aðrir, óttast hann á hverjum einasta degi og á hverju kvöldi þegar ég leggst til svefns, umkringdur englum með lítil blys og ég kann ekki að nefna þá, en veit ekki hvort ég skrifa til að skjóta honum á frest, kannski skrifa ég til að deyja tvisvar, einu sinni hér, einu sinni í skáldskapnum, kannski skrifa ég bara fyrir vatnadísir og vatnagyðjur, þær sem ég hef séð, kannski fyrir rýtinginn í mínu eigin hjarta, ég veit það ekki, en ég óttast dauðann, en bara upp að vissu marki, dauðinn nær mér bara upp að mitti, restin er ég og það mikla lífsmark sem með mér er, þótt maður sé á vissan hátt dauður þegar maður hefur klárað bók.“

Eiríkur verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju og hefst útförin klukkan 13.


Tengdar fréttir

Eiríkur Guðmundsson látinn

Eiríkur Guðmundsson útvarpsmaður og rithöfundur er látinn aðeins 52 ára að aldri, hann fæddist þann 28. september 1969 í Bolungarvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×