Innlent

Fjór­tán mánuðir fyrir til­raun til smygls á kílói af kókaíni

Atli Ísleifsson skrifar
Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði.
Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu í fjórtán mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot, en hún reyndi að smygla tæpu kílói af kókaíni til landsins. Konan flutti efnin sem farþegi með flugi frá Lissabon til Keflavíkurflugvallar í lok júní síðastliðinn.

Konan játaði afdráttarlaust sök samkvæmt ákæru, en fyrir dómi kom ekkert fram um það að ákærða hafi verið eigandi efnisins né tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þess til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Ekki er vitað til þess að konan hafi áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi.

Efnin, 957 grömm af kókaíni með 80 til 85 prósent styrkleika, voru gerð upptæk, ásamt farsíma sem konan notað við framkvæmd brotsins.

Hæfileg refsing þótti fjórtán mánuðir en til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem konan hafði sætt frá 28. júní síðastliðinn.

Konunni var einnig gert að greiða þóknun skipaðs verjanda og annan sakarkostnað, samtals um ein og hálf milljón króna.


Tengdar fréttir

Tvö burðardýr dæmd fyrir kókaíninnflutning

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo erlenda ríkisborgara fyrir innflutning á kókaíni hingað til lands. Ekkert bendir til annars en að einstaklingarnir hafi verið svokölluð burðardýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×