Topplið FH heimsótti Grindavík fyrr í kvöld og fyrir leikinn var ljóst að sigur myndi koma liðinu langleiðina upp í Bestu-deild kvenna. FH átti ekki í miklum vandræðum með Grindvíkinga, en liðið vann að lokum öruggan 0-4 sigur þar sem Telma Hjaltalín Þrastardóttir skoraði þrennu í fyrri hálfleik áður en Maggý Lárentsínusdóttir gulltryggði sigurinn í síðari hálfleik.
Þessi úrslit þýddu að ef HK myndi tapa er liðið tók á móti Víkingi R. þá væru FH-ingar öruggir með sæti í Bestu-deildinni. Arna Sól Sævarsdóttir kom HK yfir strax í upphafi leiks, en mörk frá Hafdísi Báru Höskuldsdóttir og Christabel Oduro sitt hvorum megin við hálfleikinn tryggðu Víkingi 1-2 sigur.
FH-ingar munu því leika í Bestu-deild kvenna á næsta tímabili og vegna þess að HK tapaði þá er Tindastóll einnig í kjörstöðu fyrir seinustu tvæ umferðirnar.
FH-ingar sitja á toppnum með 40 stig, Tindastóll í öðru sæti með 37 stig, HK í því þriðja með 33 stig og Víkingur í fjórða með 32 stig. HK og Víkingur halda því enn í veika von um sæti í deild þeirra bestu, en Tindastóli, sem vann 5-0 sigur gegn Fjölni í kvöld, nægir einn sigur úr seinustu tveimur leikjunum til að tryggja sér sæti í Bestu-deildinni.