Lazio vann í kvöld afar mikilvægan heimasigur á Inter frá Milanó, 3-1. Sigurinn lyftir Lazio í efsta sæti deildarinnar, a.m.k. tímabundið.
Felippe Anderson kom Lazio í forystu á 40. mínútu þegar hann setti boltann í netið með kollinum af stuttu færi eftir fyrirgjöf Milinkovic-Savic og heimamenn leiddu með einu marki í leikhlé.
Á 51. mínútu jafnaði Lautaro Martinez metin fyrir Inter. Martinez náði þá að þrýsta knettinum í markið eftir darraðardans í vítateig Lazio.
Lazio náði forskotinu aftur á 75. mínútu með þrumufleyg frá Luis Alberto sem hamraði boltanum í topphornið með skoti fyrir utan vítateig Inter. Óverjandi fyrir Samir Handanovic í marki Inter.
Pedro kláraði svo leikinn fyrir heimamenn á 86. mínútu þegar hann skrúfaði boltann upp í samskeytin eftir undirbúning Ciro Immobile.
Lokatölur voru því 3-1, sem fleytir Lazio á topp ítölsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir þrjá leiki. Inter er á sama tíma í fjórða sæti með sex stig eftir jafn marga leiki.
Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.