Innlent

Enn margir þættir málsins óljósir

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. vísir

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna rannsóknar á skotárásinni. Þar biður lögreglan um skilning á þvi að rannsóknin muni taka tíma en tekur einnig fram að enn séu margir þættir málsins óljósir.

„Rannsókn málsins er í forgangi hjá lögreglunni og er kappkostað að ljúka henni hratt og vel. Allra rannsóknaraðferða er beitt sem geta varpað ljósi á málið,“ segir í yfirlýsingunni sem sjá má í heild sinni neðst. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra hefur ekki hefur látið ná í sig frá því að embættið tók við rannsókn morðmálsins á Blönduósi á mánudag. Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, er því sá embættismaður sem hefur síðast tjáð sig við fjölmiðla en hann hefur ekki umsjón með rannsókn málsins lengur.

Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra rannsakar skotárás á Blönduósi sem varð þann 21.08.2022. Rannsókn málsins er í forgangi hjá lögreglunni og er kappkostað að ljúka henni hratt og vel. Allra rannsóknaraðferða er beitt sem geta varpað ljósi á málið.

Markmið rannsóknarinnar er að leiða í ljós hvað átti sér stað umrætt sinn. Lögregla telur sig hafa grófa mynd af því sem gerðist en enn eru margir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá. Mikið af upplýsingum um atvik málsins komu fram frá lögreglu á fyrstu stigum og hefur lögregla engu við það að bæta nú. Ekki er hægt að upplýsa frekar um einstaka rannsóknaraðgerðir á þessu stigi.

Rannsóknin mun taka tíma og biður lögregla um skilning á því. Æðsta skylda lögreglu við sakamálarannsóknir er að gæta rannsóknarhagsmuna svo að sakarspjöll verði ekki. Þegar staða rannsóknarinnar gefur tilefni til verða frekari upplýsingar veittar en málið er alvarlegt og á viðkvæmu stigi og getur lögregla því ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Svipting skot­vopna­­leyfis var í ferli

Lögregla lagði hald á skotvopn í eigu árásarmannsins, sem myrti konu í morgun og særði eiginmann hennar alvarlega í dag, fyrir nokkrum vikum. Að sögn lögreglustjórans á Norðurlandi vestra var í ferli að svipta manninn skotvopnaleyfi til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×