Skoðun

Áhyggjur af velferð hesta í Survive Iceland

Linda Karen Gunnarsdóttir skrifar

Dagana 25-28. ágúst verður haldin þolreiðarkeppni á vegum Landssambands hestamannafélaga (LH) sem ber yfirskriftina Survive Iceland. Um er að ræða 270 km þolreið um suðurhálendið sem stendur yfir í fjóra daga. Hver hestur fer um 25-35 km á dag, vegalengd sem farin er á um tveimur klukkustundum, án áningar. Það er töluvert lengri dagleið en hefðbundið er í hestamennsku hér á landi, sem er um 10-15 km á hest á dag undir knapa. Dýraverndarsamband Íslands hefur áhyggjur af velferð hesta í þessari keppni.

Samkvæmt keppnisreglum fá keppendur þrjá hesta hver og velja tvo þeirra til reiðar hvern dag. Hins vegar mega knapar velja sama hestinn alla dagana. Þetta þýðir að sumir hestar gætu þurft að fara allt að 35 km dagleið fjóra daga í röðundir knapa. Að hestar fái ekki hvíld undir svo miklu álagi eykur líkur á slysum, ofreynslu og álagsmeiðslum þar sem þeir fá ekki tækifæri til að jafna sig milli daga í keppninni, eins og hefðbundið er í öðrum keppnisgreinum t.d. á Landsmóti hestamanna.

Í nágrannalöndum okkar eiga knapar að vera með sína eigin hesta í þolreiðarkeppnum, sem þeir þjálfa og þekkja vel. Þessar forsendur eru fyrir hendi til að verja heilsu og velferð hestanna. Í þessari keppni munu erlendir keppendur ekki koma til með að þekkja hestana og vita því ekki hver þreytumerki þeirra eru. Keppendur verða sömuleiðis einir með hestana á meðan keppni stendur sem er varasamt.

Sívöktunarbúnaður sem fylgist með púlsi verður ekki notaður, en í nágrannalöndum okkar er jafnan notast við slíkan búnað til að fylgjast með ástandi hesta í þolreiðarkeppnum. Eftirlit með lífsmörkum og þar með velferð hestanna verður því ekki til staðar nema eftir um 25-35 km langan legg þegar dýralæknaskoðun á sér stað. Hestarnir verða því alfarið undir náð keppenda komnir á leiðinni.

Dýraverndarsamband Íslands telur velferð hesta ekki gætt með því fyrirkomulagi sem verður fyrir hendi í þessari keppni. Mótshaldarar eru eindregið hvattir til að skoða skipulag keppninnar og bæta það með tilliti til velferðar hesta.

Höfundur er formaður Dýraverndarsambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×