Innlent

Fugla­flensu­smit við­varandi í villtum fuglum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fuglaflensan hefur nú greinst í kríum.
Fuglaflensan hefur nú greinst í kríum. Vísir/Vilhelm

Matvælastofnun (MAST) segir fuglaflensusmit enn vera viðvarandi í villtum fuglum og enn sé hætta á að smit berist yfir í alifugla. Dregið hefur úr tilkynningum um smit síðustu mánuði sem er þó ekki merki um að fuglaflensan sé að hverfa.

Fuglaflensa er farin að greinast í fleiri tegundum villtra fugla, nú síðast í kríum. Í júlí fundust veikar kríur á Höfn í Hornafirði og greindist fuglaflensa í níutíu prósent þeirra fugla sem voru skoðaðir í kjölfar þess.

Tilkynningum um dauðar og veikar súlur hefur fjölgað í júlí og ágúst en alls hafa 450 súlur greinst með fuglaflensu það sem af er árs. Þá hefur stofnunin orðið var við aukin dauðsföll í skúmum og helsingjum í sumar á Suðaustur- og Austurlandi.

„Matvælastofnun telur því að smithætta af fuglaflensuveiru frá villtum fuglum yfir í alifugla sé óbreytt. Þess vegna er nauðsynlegt að hertar varúðarráðstafanir séu áfram í gildi og má búast við að þær munu gilda fram að vetri. Matvælastofnun mun áfram vakta smit í villtum fuglum og endurskoða mat sitt ef í ljós kemur að smit er að fjara út í villtum fuglum,“ segir í tilkynningu á vef MAST.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×