Fótbolti

Hótar að fylla liðsstjórn af vinum sínum til að hjóla í dómarana

Atli Arason skrifar
Alexander Aron, þjálfari Aftureldingar ásamt liðsstjórn.
Alexander Aron, þjálfari Aftureldingar ásamt liðsstjórn. Vísir/Diego

Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar var allt annað en sáttur við vítaspyrnu sem Keflavík fékk í 2-3 sigri liðsins í Mosfellsbæ í Bestu-deild kvenna í gær.

„Maður verður bara að treysta dómaranum en það sást líka að dómarinn tekur 10 sekúndur að hugsa þetta og á meðan ráðast þeir [Keflvíkingar] á fjórða dómarann og það er óboðlegt. Ég sagði orðrétt við dómarann hvort ég ætti ekki að fylla liðsstjórn á skýrslu af vinum mínum og fara alltaf að hjóla í ykkur [dómarana],“ sagði Alexander í viðtali eftir leik.

„Dómarinn beið og hann fékk eitthvað í eyrað, hvort það var aðstoðardómarinn eða fjórði dómarinn veit ég ekki,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna um atvikið.

Vítaspyrnuna fékk Keflavík eftir að boltinn virtist fara í höndina á Mackenzie Cherry, leikmanni Aftureldingar. Aníta Lind Daníelsdóttir tók vítaspyrnuna og jafnaði leikinn í 2-2 áður en Dröfn Einarsdóttir skoraði svo sigurmark Keflavíkur stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að neðst í fréttinni en erfitt er að sjá nákvæmlega hvað gerðist frá því sjónarhorni.

„Það er erfitt að greina þetta en við sjáum þetta eiginlega ómögulega,“ sagði þáttastjórnandinn Helena Ólafsdóttir.

„Ef höndinn er alveg upp við líkamann þá sveiflast hún ekki svona,“ svaraði Lilja Dögg Valþórsdóttir á móti.

Bæði lið þurftu á sigri að halda í þessum sex stiga fallbaráttuslag og því eðlilegt að mönnum hafi verið svolítið heitt í hamsi. Eftir leikinn er Afturelding í fallsæti með 9 stig á meðan Keflavík er tveimur sætum ofar, í því sjöunda með 13 stig.

Klippa: Hótar að fylla liðstjórn af vinum sínum til að hjóla í dómarann

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×