Innlent

Hrifinn af tillögum Sjálfstæðismanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík. Á bak við hann stendur Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík. Á bak við hann stendur Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna. Vísir/vilhelm

Oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík líst vel á bráðatillögur Sjálfstæðismanna í leikskólamálum. Ekkert sé því til dæmis til fyrirstöðu að koma á fót bakvarðarsveit til að tryggja mönnun leikskólanna. Meirihlutinn kynnir eigin tillögur á morgun - sem að sumu leyti muni svipa til tillagna Sjálfstæðismanna.

Tillögurnar fimm sem Sjálfstæðismenn leggja fram í skóla- og frístundaráði eru til dæmis að komið verði á fót bakvarðasveit til að tryggja mönnun leikskólanna, þeir starfsmenn sem starfi á frístundaheimilum eftir hádegi verði boðin vinna á leikskólunum fyrir hádegi og að veita undanþágu fyrir rekstrarleyfi nýrra leikskóla þar sem húsnæðið er fullbúið þó lóðin sé ekki fullfrágengin.

Þessar tillögur leggjast vel í Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknar í borginni.

„Það er bara mjög gott að Sjálfstæðismenn leggi fram tillögur til þess að flýta fyrir því að hægt sé að opna leikskólapláss og tryggja mönnun. Og við tökum þessum hugmyndum fagnandi og skoðum þær í samhengi við þær tillögur sem við höfum verið að vinna hörðum höndum að undanfarna daga,“ segir Einar.

Og væri þá nokkuð því til fyrirstöðu að koma til dæmis á bakvarðarsveit, eins og Sjálfstæðismenn leggja til?

„Nei, ég er bara hlynntur þeirri hugmynd að efla þá vinnu sem snýr að mönnun leikskólanna. Ég veit að það er unnið mjög hörðum höndum að því hjá skóla- og frístundasviði að tryggja mönnun og einhverjar útfærðar hugmyndir um það hvernig er hægt að efla það átak.“

Leikskólamálin verða í brennidepli í ráðhúsinu á morgun; foreldrar barna á leikskólaaldri boða þar áframhaldandi mótmæli, hyggjast mæta með börnin og koma upp svokölluðum „hústökuleikskóla“. Um hádegisbil reiknar meirihlutinn með að kynna tillögur sínar að bráðaaðgerðum í leikskólamálum að loknum borgarráðsfundi. 

Einar segir tillögurnar sumar munu svipa til tillagna Sjálfstæðismanna en annað verði öðruvísi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er meirihlutinn til að mynda með svipaðar hugmyndir um undanþágu fyrir nýja leikskóla þó að lóðir séu ekki fullfrágengnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×