Sport

Kom í mark sem Evrópumeistari en líka með risasár: Lærið „sprakk“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gina Luckenkemper fagnar sigri á meðan læknaliðið gerir að sári hennar.
Gina Luckenkemper fagnar sigri á meðan læknaliðið gerir að sári hennar. Getty/Simon Hofmann

Þjóðverjinn Gina Lückenkemper varð í gær Evrópumeistari í 100 metra hlaupi kvenna eftir frábæran endasprett. Hún fagnaði gríðarlega og tók ekkert eftir stóru sári á lærinu sínu.

Allt í einu tóku menn eftir risastóru sári á læri hennar en það var eins og lærið hefði hreinlega sprungið undan álaginu.

„Ég veit ekkert hvenær þetta gerðist,“ sagði Gina Lückenkemper eftir hlaupið en viðtalið var tekið við hana á meðan læknar og sjúkraliðar gerðu að sárinu.

„Þetta er allt í fína lagi. Ég var með svo mikið adrenalín að ég fann ekkert fyrir þessu. Ég er full af hamingju og skil ekki enn hvernig þetta gerðist allt saman,“ sagði Gina.

Lückenkemper kom í mark á 10,99 sekúndum og var sjónarmun á undan hinni svissnesku Mujinga Kambundji sem var í forystu stærstan hluta hlaupsins.

Hún fleygði sér fram í markinu og náði að stinga sér fram fyrir þá svissnesku og það er líklegt að sárið hafi myndast þá. Þegar myndir af henni komu upp á skjáinn þá tóku margir áhorfendur andköf enda sárið ljótt. Það var hreinlega eins og lærið hennar hefði sprungið.

Lückenkemper er 25 ára gömul og hafði best náð silfri í 100 metra hlaupi á EM í Berlín 2018.

Það er ljóst að hún finnur sig vel á heimavelli því Evrópumeistaramótið í ár fer fram í München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×