Lollobrigida skaust upp á stjörnuhimininn árið 1947 þegar hún tók þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ítalía og endaði í þriðja sæti. Eftir það fór hún að leika í kvikmyndum og árið 1953 vann hún til BAFTA-verðlauna fyrir leik sinn í myndinni Brauð, ást og draumar (e. Pane, amore e fantasia).
Sama ár lék hún í myndinni Beat the Devil og var það hennar fyrsta kvikmynd þar sem töluð var enska. Hún lék þar á móti Humphrey Bogart en hún átti eftir að leika með fleiri heimsfrægum leikurum, líkt og Burt Lancaster, Anthony Quinn og söngvaranum Frank Sinatra.
Hún minnkaði við sig í leiklistinni í byrjun áttunda áratugarins en sneri aftur um skammt skeið tíu árum síðar. Síðustu ár hefur hún einbeitt sér að öðruvísi list en leiklistinni, þar á meðal myndlist og högglist.
Nú stefnir hún hins vegar á feril í stjórnmálum og ætlar að bjóða sig fram fyrir Ítalska fullveldisflokkinn. Hún segist vera orðin þreytt á því að hlusta á stjórnmálamenn rífast við hvorn annan án þess að komast að niðurstöðu.
„Ég mun berjast fyrir því að fólkið fái að velja, frá heilbrigðismálum til jafnréttismála. Ítalía er í slæmu ástandi, ég vil gera eitthvað gott og jákvætt,“ sagði hún í viðtali við ítalska miðilinn Corriere della Sera á sunnudaginn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lollobrigida fer í framboð en árið 1999 bauð hún sig fram til Evrópuþingsins en tókst ekki að komast þangað inn.