Formaður Öryrkjabandalagsins, Þuríður Harpa Sigurðardóttir staðfestir í samtali við fréttastofu að kvartanir vegna rukkana í bílastæðahúsum hafi ítrekað borist bandalaginu. Hún segist ekki hafa fengið skýringu á því af hverju málið hafi ekki verið lagfært.
Hún segir gjaldtöku í þessum efnum ekki standast lög en önnur bílastæðahús eins og það í Hörpunni hafi nú farið að fordæmi Bílastæðasjóðs og séu byrjuð að rukka fólk með P-passa.
„Það hlýtur að vera eðlileg krafa að stofnanir borgarinnar eða sjóðurinn fari að lögum,“ segir Þuríður.
Þuríður segir fatlað fólk veigra sér við því að fara í bæinn vegna aðstæðna, gjaldtakan hefti ferðafrelsi fólks.
Fólk sem að hafi P-passa þurfi að geta farið um á bíl og hafi ekki endilega val um það að fara með öðrum ferðamáta. Hún segir fá stæði vera til staðar fyrir fólk á stærri bílum og verið sé að þrengja að P-merktum stæðum innan borgarinnar.
„Ég skil bara ekki hvernig sumir geta bara ákveðið að fara ekki að lögum,“ segir Þuríður.
Hún segist vilja að farið sé að lögum og að fólk með P-passa geti nýtt sér gjaldfrjáls stæði. „Ég myndi náttúrulega vilja sjá að Bílastæðasjóður endurgreiði því fólki sem hann hefur brotið á.“
Hún segir gjaldtökuna vera skerðingu á réttindum fólks og ferðafrelsi, hún auki einsemd og einangrun þar sem fólk geti þá ekki nýtt sér menningu eða þjónustu.