Erlent

Sameinuðu þjóðirnar uggandi eftir ítrekaðar árásir á kjarnorkuver

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Írekað hefur verið ráðist á kjarnorkuverið í Zaporizhia
Írekað hefur verið ráðist á kjarnorkuverið í Zaporizhia

Rússar og Úkraínumenn benda enn hvorir á aðra vegna ítrekaðra árása á stærsta kjarnorkuver Evrópu í austurhluta Úkraínu. Árásir þessar hafa aukið á áhyggjur manna af því árásirnar leiði til stórslyss í kjarnorkuverinu sem hafi óafturkræfar afleiðingar í för með sér. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallar eftir því að svæðið í kringum kjarnorkuverið verði hlutlaust.

Frá þessu er meðal annars greint á vef BBC. Bæði Úkraínumenn og Rússar hafa greint frá því að samtals tíu árásir hafi verið gerðar á kjarnorkuverið í Zaporizhia, bæði skrifstofu þess og eldvarnarkerfi. Öryggisráð SÞ var kallað saman til þess að ræða alvarlegu stöðuna sem upp er komin. Yfirmaður kjarnorkumála hjá ráðinu sagði stöðuna mjög alvarlega og Antonio Guterres, aðalritari segir átökin á svæðinu geta leitt til hörmunga.

Bæði Kínverjar og Bandaríkjamenn hafa kallað eftir því að sérfræðingum frá Sameinuðu þjóðunu verði gert kleift að heimsækja kjarnorkuverið en ekkert hefur verið samþykkt í þeim efnum. Bandaríkjamenn hafa einnig kallað eftir því að svæðið verði hlutlaust, enda sé bæði hættulegt og óábyrgt að berjast í kringum stærsta kjarnorkuver Evrópu. Rússar hafa hins vegar alfarið hafnað slíkum bollaleggingum.

Úkraínumenn saka jafnframt Rússa um að gera tilraun til þess að umbreyta svæðinu í herstöð Rússneska hersins, Rússar hafa hafnað þeim ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×