Á fundi lögreglunnar og stjórn Hinsegin daga í ágúst 2019 fyrir Gleðigönguna voru aðilar sem höfðu mótmælt á opnunarhátíðinni nafngreindir. Þeir aðilar voru taldir líklegir til að mótmæla einnig á göngunni sjálfri. Í kjölfar samtalsins var Elínborg handtekið.
Í viðtali við Vísi á sínum tíma sagðist Elínborg ekki hafa verið að fara að mótmæla í göngunni heldur ætlað að taka þátt í henni.
„Þá er bara ráðist á mig, mér skellt í jörðina og ég tekið inn í bíl,“ sagði Elínborg og bætti við að þegar þarna hafi verið komið við sögu hafi hán þegar verið komið á hnén.
Stjórn Hinsegin daga hefur nú, þremur árum seinna, beðið Elínborgu afsökunar á þessu atviki þar sem nafngreiningin hefði ekki átt að leiða til handtöku.
„Að baki samskiptum Hinsegin daga við lögreglu lá enginn ásetningur annar en að leita ráða um hvernig best mætti tryggja öryggi meðan á Gleðigöngunni stæði,“ segir í tilkynningu á vef Hinsegin daga.

Stjórninni er ljóst að það að nafngreina aðila í þessum samskiptum hafi verið mistök. Þá hafi sein vinnubrögð, samskipta- og stuðningsleysi stjórnarinnar í kjölfar handtökunnar einnig verið mistök.
„Á öllu þessu biðjumst við innilega afsökunar og hörmum þessi mistök,“ segir í tilkynningunni.