Um er að ræða litlar kjallaraíbúðir, sem voru áberandi í Óskarsverðlaunamyndinni Parasite en íbúðirnar eru alla jafnan leigðar út til fólks með afar lítið á milli handanna. Framvegis munu yfirvöld í Seúl ekki gefa út byggingarleyfi fyrir slíkum íbúðum og ætla að vinna að endurbótum á þeim íbúðum sem fyrir eru.
Upphaflega var greint frá því að átta hefðu látið lífið í gríðarlegum flóðum á mánudag í kjölfar úrhellisrigninga í Seúl. Sú tala er nú komin upp í ellefu en fjórtán slösuðust til viðbótar. Samkvæmt veðurstofu landsins var á sumum svæðum um að ræða mesta regnfall í 80 ár.
Á mánudagskvöld fundust tvær konur, systur á fimmtugsaldri og 13 ára dóttir annarrar, látnar í kjallaraíbúðinni sem var þá yfirfullt af vatni. Að því er fregnir herma kölluðu þær á hjálp á meðan vatnið flæddi inn en björgunaraðgerðir mistókust.
Hörmungarnar hafa endurvakið athygli á miklum ójöfnuði í landinu, líkt og beint var sjónum að í Parasite-myndinni. Íbúðirnar hafa í raun verið alræmdar í Suður-Kóreru vegna hættulegra lífsskilyrða og ódýrrar leigu en nú hyggjast yfirvöld veita þeim íbúum húsaskjól til bráðabirgða til að vinna endurbætur á íbúðunum.
