Fótbolti

Hand­tekinn fyrir að njósna um leik­menn Real Madrid

Atli Arason skrifar
Karim Benzema og Vinicius Junior voru báðir á Hilton hótelinu í Helsinki. 
Karim Benzema og Vinicius Junior voru báðir á Hilton hótelinu í Helsinki.  Getty Images

Lögreglan í Finnland handtók í dag manneskju sem reyndi að taka myndir með dróna af leikmönnum Real Madrid inn á hótelherbergi sínu í Helsinki.

Leikmenn Real Madrid gista á Hilton Strand hótelinu í Helsinki fyrir leikinn um Ofurbikar UEFA gegn Eintracht Frankfurt sem nú stendur yfir á Olympíu-leikvanginum í höfuðborg Finnlands. Fyrr í dag flaug dróni upp að gluggum liðsins og virtist vera að fylgjast með þeim.

„Þetta virðist vera aðdáandi sem var að reyna að ná myndum af leikmönnunum,“ sagði lögreglustjórinn Juha-Matti Suominen við finnska miðilinn HS.

Manneskjan sem stýrði drónanum er nú í haldi lögreglu en með athæfi sínu gerðist þessi aðili meðal annars brotlegur við flugreglugerð og njósnalöggjöf.

„Þetta er griðastaður þar sem fólk sefur sem gerir að verkum að athæfi sem þetta flokkast undir njósnir,“ útskýrði Souminen.

Leikurinn sjálfur hófst klukkan 19.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Real Madrid hefur fjórum sinnum unnið Ofurbikar UEFA í sjö tilraunum en þetta er í fyrsta skipti sem Eintracht Frankfurt spilar um þennan bikar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×