Innlent

Ekki allir sem hlusta

Eiður Þór Árnason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri hjá Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, hefur staðið vaktina á gossvæðinu í dag. 
Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri hjá Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, hefur staðið vaktina á gossvæðinu í dag.  Vísir

Eitthvað hefur borið á minniháttar meiðslum og fótameinum hjá fólki sem leggja leið sína að eldgosinu í Meradölum og dæmi um að einstaklingar togni á ökkla og þurfi aðstoð vegna örmögnunar. Heilt yfir hefur þó gengið nokkuð vel á svæðinu að sögn björgunarsveitarfólks en mikill fjöldi hefur gert sér ferð að gosinu frá því á miðvikudag. Er allur gangur á því hversu vel fólk er búið.

„Þetta er alveg sex til sjö kílómetra gönguferð, á svona missléttu og á köflum erfiðu landslagi þannig að fólk verður að vera vel búið til fótanna og með nesti,“ sagði Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri hjá Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Heilt yfir er fólk að fylgja því sem er sagt sem betur fer en það er alltaf einn og einn sem annað hvort missir af leiðbeiningum eða skilur ekki eða hlustar ekki. Það er bara eins og gengur en heilt yfir er fólk að taka leiðbeiningum og fylgja því sem sagt er.“

Dæmi eru um að ökumenn leggi bifreiðum sínum í vegköntum á Suðurstrandarvegi í stað þess að leggja á þar til gerðum bílastæðum og keyri utan vega. Steinar Þór segir að slíkt sé ekki í lagi.

„Þetta kemur til með að trufla umferð og getur bara verið til vandræða ef við þurfum að bregðast við einhverjum neyðartilfellum þannig endilega að nota bílastæðin. Eins með utanvegaakstur, akstur vélknúinna ökutækja er bannaður hérna og telst vera utanvegaakstur þannig að það eru alveg hreinar línur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×