Innlent

Börn eiga ekki erindi að eldstöðvunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk er þegar farið að ganga upp að eldstöðvunum við Geldingadali.
Fólk er þegar farið að ganga upp að eldstöðvunum við Geldingadali. Vísir/Eyþór

Börn eiga ekki erindi upp að eldstöðvunum við Geldingadali. Bæði vegna gasmengunar og erfiðrar gönguleiðar. Þetta segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, en börn og fullorðnir með undirliggjandi sjúkdóma eru viðkvæmari gagnvart gasmengun.

Landlæknir varaði við því í fyrra að börn hafi minna þol gagnvart loftmengun og að það eigi einnig við mengun frá eldgosi. Ekki sé ráðlegt að börn dvelji lengur en fimmtán mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum.

Elín segir að gönguleiðin að þessu hrauni væri töluvert erfiðari en leiðin að gosinu í fyrra og aðstæður erfiðari. Ekki væri búið að stika leið eða grípa til annarra aðgerða. Þá sé vert að vara fólk við því að ganga með gosmökkinn á móti sér og að kalt geti verið á svæðinu.

Eldgosið við Geldingadali er töluvert stærra en gosið sem var á svipuðum slóðum í fyrra. Það gos var þó eitt það minnsta hér á landi. Mögulegt er að gosið muni vara skemur en það fyrra og er sömuleiðis mögulegt að fleiri sprungur opnist en Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að staðan muni skýrast á næstu dögum.

„Þetta gæti orðið öflugra og hraðari atburðarrás. Það gæti líka staðið skemur,“ sagði Magnús Tumi. Hann sagði líka að þegar eldgos byrja með krafti eins og nú, gæti dregið fljótt dregið úr kraftinum. Þetta væri þó allt óráðið.

„Þetta mun skýrast á næstu dögum, í hvaða farveg þetta ætlar að fara.“

Magnús Tumi segir það ekki koma á óvart að þetta gos komi upp svo nærri því síðasta. Jarðskjálftar hafi bent til þess að kvikan hafi verið að troðast inn á svæðinu. Ekki sé hægt að útiloka að fleiri sprungur muni opnast norðar en tíminn verði að leiða það í ljós.

Hann segir að hraunið muni leggjast ofan á hraunið úr eldgosinu í fyrra og standi eldgosið yfir í langan tíma muni það flæða úr Meradölum og til suðurs í átt að Suðurstrandaveg. Það sé þó langur vegur til þess.


Tengdar fréttir

Fann tvo menn sem voru fastir og skutlaði þeim alveg upp að hrauninu

Gylfi Blöndal var á ferð með vini sínum nálægt gosstöðvunum í Geldingadal þegar hann rakst á tvo blaðamenn mbl.is á leið að gosinu. Þeir voru voru fastir en Gylfi var á mun betri bíl en þeir og skutlaði þeim alveg upp að lekandi hrauninu með aðstoð blaðamannapassa þeirra.

Svona var blaða­manna­fundurinn vegna eld­gossins

Almannavarnir hafa boðið til fjölmiðlafundar klukkan 17:30 í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Tilefnið er eldgosið sem hófst við Geldingadali á öðrum tímanum í dag.

Gosið leggst vel í Grindvíkinga

Guðrún Kristín Einarsdóttir er formaður Þórkötlu, sem er deild innan slysavarnafélagsins í Grindavík. Hún var hress þegar Vísir heyrði í henni, gosið leggst bara vel í hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×