Innlent

„Lítið og nett hraungos“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir gosið sem hófst í dag vera lítið og nett.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir gosið sem hófst í dag vera lítið og nett. Vísir/Vilhelm

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir í samtali við fréttastofu að gosið sem hófst á Reykjanesi í dag sé lítið og nett. Virknin sé að draga sig saman í ákveðna gíga og þá muni gjósa úr gígopum frekar en sprungunni.

Að sögn Þorvaldar teygir gostungan sig um fimm hundruð metra en kvikustrókurinn er frekar veikur, einungis tíu til fimmtán metrar. Sprungan teygir sig frá norðnorðvestur af Meradölum og upp fyrir hæðina þar fyrir norðan. 

„Flæðið markast við Meradalina, ef það heldur áfram eins og það er núna þá smátt og smátt fyllast Meradalirnir og síðan fer að flæða úr þeim,“ segir Þorvaldur en hann segir að ef gosið heldur áfram eins og það er núna munu innviðir ekki skemmast. 

Hann reiknar með því að það muni draga úr kvikuganginum en það fer algerlega eftir því hvað er í gangi fyrir neðan sprunguna. 

Töluverð gasmengun er við gosstöðvarnar en brennisteinsský liggur undan vindi og liggur það lágt. 

„Ef fólk er að fara þarna upp eftir er betra að vera vindmegin gosstöðvarnar og uppi á hæðunum. Gasið er þyngra en andrúmsloftið og getur safnast í lægðum. Það vill enginn lenda í því að fá brennisteinseitrun, það er ekkert sérstakt,“ segir Þorvaldur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×