Skoðun

Söfn fyrir öll

Dagrún Ósk Jónsdóttir og Steindór G. Steindórsson skrifa

Söfn gegna mikilvægu hlutverk í samfélaginu, þau safna og varðveita gripi fyrir komandi kynslóðir, miðla menningararfinum til fólks á fjölbreyttan hátt, stunda rannsóknir, standa fyrir viðburðum, fræða og gleðja svo eitthvað sé nefnt. Þau endurspegla samfélagið, tengja saman fortíð og samtíð og reyna að stuðla að því að sem flestir geti haft gagn og gaman af því sem þar er að finna.

 Mörg söfn hafa undanfarin ár lagt sig fram við að miðla fjölbreytileikanum, fjalla um ólíka hópa samfélagsins svo að sem flest geti tengt við það sem fyrir augu ber. Nú eru hinsegin dagar gengnir í garð en saga hinsegin fólks er oft frekar ósýnileg á söfnum. Safnkostur endurspeglar oftast efnismenningu en kynhneigð eða kynvitund fólks sést (yfirleitt) ekki á efnislegum hlutum.

Árið 2018 þegar Samtökin 78 urðu 40 ára leituðu þau til Þjóðminjasafnsins um samstarf til að gera hinsegin fólk sýnilegt í grunnsýningu safnsins. Þá var valin sú leið að búa til vegvísi með hugleiðingum um hinsegin sögu á Íslandi en sú leiðsögn heitir Regnbogaþráðurinn.

Regnbogaþráðurinn var opnaður í nóvember 2018 og er hinsegin vegvísir í gegnum grunnsýninguna: Þjóð verður til: menning og samfélag í 1200 ár. Í honum er fjallað um hinsegin sögu á Íslandi. Með hugtakinu hinsegin er átt við kyn og kynverund sem samræmist ekki hefðum og venjum hvers tíma, þar á meðal fólk sem í dag væri kallað trans, intersex, kynsegin, samkynhneigt, tví-, pan- eða eikynhneigt.

Regnbogaþráðurinn byggir á rannsóknum sem gerðar hafa verið undanfarin ár innan hinsegin sögu. Þráðurinn slitnar á miðöldum en heldur áfram á 19. öld vegna skorts á rannsóknum og heimildum um það tímabil.

Þjóðminjasafnið.

Markmiðið með Regnbogaþræðinum er að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýnnar hugsunar. Í leiðsögninni er meðal annars fjallað um ástir kvenna, karla í ástandinu, sjálfsmyndir, beinagrindur og klaustur.

Saga hinsegin fólks er ekki oft sögð á opinberum söfnum og sýningum. Með þessu framtaki vilja Þjóðminjasafnið og Samtökin '78 benda á mikilvægi þess að segja sögu minnihlutahópa á söfnum og skoða hefðbundna Íslandssögu út frá gagnrýnum sjónarhóli og spyrja spurninga um hverra saga sé sögð.

Á Alþjóðlega safnadaginn sem haldinn var í maí síðastliðinn var þemað einmitt máttur safna sem er meðal annars geta þeirra til að fræða okkur um fortíðina og á sama tíma opna hug okkar gagnvart nýjum hlutum og hugmyndum sem gerir okkur kleift að leggja grunn að betri framtíð. Þess vegna er mikilvægt að söfn endurspegli fjölbreytileikann og séu fyrir okkur öll.

Gleðilega hinsegin daga!

Steindór Gunnar Steindórsson er samskiptastjóri Þjóðminjasafnsins og Dagrún Ósk Jónsdóttir er verkefnisstjóri FÍSOS.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×