Á mánudagskvöld urðu nokkrir stórir skjálftar við Krýsuvík, og fundust vel á höfuðborgarsvæðinu. Þeir ferðamenn sem fréttastofa ræddi við í miðbæ Reykjavíkur höfðu sumir aldrei upplifað jarðskjálfta.
„Við vorum í íbúðinni okkar og hún hristist. Við höfum aldrei fundið slíkt áður,“ sagði hinn svissneski Thomas, og virtist hinn kátasti með að hafa fengið að upplifa jarðskjálfta í fyrsta sinn.
„Ég var að reyna að sofa og ég fann bústaðinn hristast. Ég sagði vinum mínum frá því sem voru úti að ganga. Þetta var víst jarðskjálftinn,“ sagði Mathieu, frá Belgíu.
Svo þú áttaðir þig ekki á því þá að þetta væri jarðskjálfti?
„Nei.“
Var farinn að leita að dyrunum
„Manni brá dálítið en þetta var fljótt afstaðið,“ segir hin þýska Silke.
„Já, þetta stóð yfir í tvær eða þrjár sekúndur,“ bætti Bert, samferðamaður hennar, við.
„Ég var á barnum á Edition-hótelinu og allt í einu byrjaði allt að hristast og titra. Húsið skalf. Ég áttaði mig strax á því hvað þetta væri,“ sagði Bandaríkjamaðurinn Edward.
Þú áttaðir þig á þessu strax svo þú varst ekki hræddur?
„Ég var dálítið stressaður og var farinn að leita að dyrunum þegar hann hætti. Allir sögðu að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur, hótelið væri nýtt og væri byggt fyrir jarðskjálfta.“