„Heilt yfir má segja að nóttin hafi gengið ágætlega,“ segir í færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem sett var inn á Facebook í morgun. Enginn var vistaður í fangaklefa þrátt fyrir nokkurn fjölda útkalla en nóttin var heldur rólegri en fyrrinótt.
Um tíuleytið var einn handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Farþegi í bílnum var einnig tekinn fastur, grunaður um vörslu fíkniefna og brots á vopnalögum. Mennirnir voru þó leystir úr haldi að skýrslutöku lokinni.
Lögreglan á Norðurlandi eystra mun fylgjast sérstaklega vel með ökumönnum í dag og viðhafa sérstakt eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri. Fólk er hvatt til að fara ekki of snemma af stað út í umferðina.