Erlent

Tala látinna fer hækkandi og um­fangs­mikil leit stendur yfir

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þaulreyndir björgunarmenn segjast aldrei hafa upplifað annað eins.
Þaulreyndir björgunarmenn segjast aldrei hafa upplifað annað eins. AP Photo/Timothy D. Easley

Að minnsta kosti nítján hafa látist í flóðum í Appalachiafjöllum í Bandaríkjunum, þar á meðal sex börn. Ríkisstjóri Kentucky-héraðs gerir ráð fyrir því að tala látinna fari hækkandi og umfangsmikil leit stendur enn yfir.

Gífurlegt úrhelli hefur verið í Appalachiafjöllum í Kentucky-ríki undanfarið sem endaði með öflugri flóðbylgju. Ógnarmikill kraftur var í flóðbylgjunni sem gleypti bæði þorp og bæi og útlit er fyrir meiri úrkomu næstu daga.

„Margra er enn saknað og við erum að gera okkar allra besta. Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Andy Beshear ríkisstjóri Kentucky við Breska ríkisútvarpið. Björgunarmönnum hefur tekist að bjarga hundruðum en notast er við þyrlur og báta. 

Flóðin hafa verið hvað verst og valdið mestu eignartjóni á einu fátækasta svæði Bandaríkjanna. Helsti sérfræðingur ríkisins í loftslagsmálum segir að rekja megi þessa öfga í veðri til loftslagsbreytinga en sjötíu létust í fellibyljum í Kentucky í desember síðastliðnum, sem voru þeir öflugustu í manna minnum.

Gert er ráð fyrir frekari úrkomu næstu daga.AP/Hermens




Fleiri fréttir

Sjá meira


×