Dómstóll í Moskvu dæmdi fréttakonuna Marina Ovsyannikova fyrrverandi ritstjóra Stöðvar 1 til greiðslu sektar fyrir að hafa smánað rússneska herinn þegar hún truflað útsendingu frétta með því að stilla sér upp fyrir aftan fréttaþul með mótmælaspjald gegn innrás Rússa í Úkraínu. Henni er gert að greiða 50.000 rúblna sekt eða rúmlega 110 þúsund íslenskrar krónur.

Að lokinni dómsuppkvaðningunni sagði hún stríð vera versta glæp 21. aldarinnar. Hún stæði fullkomlega við orð sín og myndi halda áfram að mótmæla innrásinni sem væri hluti af hennar borgaralegu réttindum og hún óskaði ekki eftir hæli í öðru landi.
„Allar þessar ásakanir eru algerlega fáránlegar. Ég skil ekki þessa tímasóun. Það var augljóst frá upphafi að til þessara réttarhalda var boðað til að hræða mig og alla þá sem eru ósammála stjórnvöldum varðandi stríðið," sagði Ovsyannikova að lokinni dómsuppkvaðningu.
Krefjast afturköllunar starfsleyfis netmiðils
Þá hefur Fjölmiðlaráð Rússlands krafist þess að Hæstiréttur landsins afturkalli starfsleyfi vefútgáfu dagblaðsins Novaya Gazeta fyrir að hafa ekki tekið fram að höfundar nokkurra greina væru "erlendir útsendarar," eins og stjórnvöld kalla það. Prentútgáfunni er einnig ógnað af svipuðum ástæðum.
Fréttastjórinn Nadezhda Prusenkova segir að gripið verði til varna þótt hún hefði enga tálsýn varðandi útkomuna.

„Það er augljóst að stjórnvöldum finnst við ekki bara óþörf, heldur sé þankagangur okkar óþarfur í rússnesku samfélagi. Eins og allt sem snertir okkar miðil og ekki bara þankagangur okkar í dag heldur einnig hvað við gætum hugsað í framtíðinni," sagði Prusenkova.
Lögmaður hennar sagði þetta í fyrsta sinn sem rússnesk stjórnvöld bönnuðu fólki með beinum hætti að segja hug sinn. Það gæfi fordæmi fyrir því að þagga niður í öllum sem mótmæltu stríðsrekstrinum í Úkraínu.
Samfélagsmiðlar sektaðir fyrir óhlýðni
Dómstóll í Moskvu kvað einnig upp sektardóm yfir tónlistarveitunni Spotify og Tinder í gær. Miðlarnir eru sakaðir um að neita að koma netþjónum með upplýsingum um notendur sína í Rússlandi fyrir þar í landi.
Fjölmiðlaráð Rússlands stefndi fyrirtækjunum og krafðist þess að fyrirtækin yrðu sektuð. Spotify var dæmt til að greiða hálfa milljón rúblna í sekt, um 1,1 milljónir króna og Tinder var gert að greiða tvæ milljónir rúblna eða um 4,6 milljónir króna.
Þá hafa rússnesk stjórnvöld einnig hafið málaferli gegn WhatsApp og Snapchat þar sem þess er sömuleiðis krafist að upplýsingar um rússneska notendur verði vistaðar á netþjónum í Rússlandi.