Sport

Á nú 29 bestu tíma sögunnar í sinni grein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katie Ledecky er algjör yfirbuðarmanneskja í sögu 800 metra skriðsunds kvenna.
Katie Ledecky er algjör yfirbuðarmanneskja í sögu 800 metra skriðsunds kvenna. Getty/Tom Pennington

Bandaríska sundkonan Katie Ledecky hélt áfram sigurgöngu sinni á bandaríska meistaramótinu í sundi í vikunni þegar hún vann 800 metra skriðsundið mjög örugglega.

Ledecky kom í mark á 8:12.03 mín. sem er nítjándi fljótasti tími sögunnar. Hún var nítján sekúndum á undan næstu sundkonu sem eru ótrúlegri yfirburðir.

Það er hins vegar aðeins Ledecky sjálf sem hefur synt hraðar og í raun á hún nú 29 bestu tíma sögunnar í 800 metra skriðsundinu. Í þrítugasta sæti er Ástralinn Ariarne Titmus sem synti á 8:13.83 mín. þegar hún tapaði fyrir Katie i úrslitasundinu á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra.

Heimsmetið setti Ledecky á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 þegar hún kom í mark á 8:04.79 mín.

Metið eignaðist Ledecky fyrst þegar hún sló met Rebecca Adlington í ágúst 2013 þegar Katie var aðeins sextán ára gömul.

Katie bætti það heimsmet síðan fjórum sinnum frá 2014 til 2016.

Ledecky hefur orðið Ólympíumeistari í 800 metrunum á síðustu þremur Ólympíuleikum og hún hefur fimm sinnum orðið heimsmeistari í þessari grein. Engin sundkona hefur náð að vinna hana í þessari grein síðustu tólf ár.

Það er því ekkert skrýtið að sérfræðingar og aðrir velti því nú fyrir sér hvort að þetta séu mestu yfirburðir sundmanns í einni grein í sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×