Erlent

Stjórnarskrárbreyting veitir forseta Túnis nær alræðisvald

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kais Saied fagnar sigri með stuðningsfólki sínu.
Kais Saied fagnar sigri með stuðningsfólki sínu. Getty

Nýsamþykkt stjórnarskrárbreyting í Túnis veitir forseta landsins nær alræðisvald innan stjórnkerfisins. Margir óttast að landið sé að færast aftur til einræðis.

Þjóðaratkvæðagriðslan var haldin í gær, nákvæmlega ári eftir að Saied sagði upp ríkisstjórinni og setti þingstörf í algjört uppnám. 

Samkvæmt niðurstöðum er um 95 prósent stuðningur innan landsins við stjórnarskrárbreytinguna. Útgönguspár voru kynntar í ríkisútvarpi landsins um klukkan tvö í nótt að staðartíma. Saied ávarpaði lýðinn í kjölfarið.

„Nýtt skeið er hafið í sögu Túnis,“ er haft eftir Saied í frétt ríkisútvarpsins í Túnis. „Allir þeir sem hafa framið glæpi gegn landi okkar munu svara fyrir það,“ bætti forsetinn við án þess að nefna þá glæpamenn á nafn. 

Einungis um þriðjungur þeirra 9,3 milljóna kosningabærra manna nýttu atkvæðarétt sinn, en margir sniðgengu atkvæðagreiðsluna í mótmælaskyni. Þrátt fyrir það var kjörsókn nokkru meiri en búist var við og gefur því vísbendingu um að forsetinn njóti enn mikils persónufylgis. Kjörstjórn var þó sökuð um að falsa kosningatölur um leið og tölurnar voru birtar. 

Með nýjum stjórnarskrárákvæðum verður forsetinn æðsti yfirmaður hersins, sem gerir honum kleift að skipa ríkisstjórn án stuðnings meiri hluta þingsins. Að auki verður mun auðveldara fyrir forsetann að samþykkja ný lög einhliða. Í raun sé því ómögulegt að koma forsetanum af valdastóli með núverandi stjórnskipulagi, að sögn pólitískra andstæðinga þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×