Erlent

Náinn ráðgjafi Orban segir upp vegna nasískrar ræðu

Ólafur Björn Sverrisson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Viktor Orban, forsetætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsetætisráðherra Ungverjalands. Vísir/EPA

Náinn ráðgjafi Viktors Orban forsætisráðherra Ungverjalands og vinkona hans til áratuga hefur sagt upp störfum eftir umdeilda ræðu sem Orban hélt í Rúmeníu á dögunum. Zsuzsa Hegedus segir að ræðan hafi verið nasísk og því hafi henni ekki verið sætt áfram í störfum sínum fyrir forsætisráðherrann.

Ungverskir miðlar segja að þjóðernissinninn Orban hafi verið að lýsa skoðunum sínum á blöndun kynþátta í ræðunni. Hann hafi tekið fram að Evrópubúar ættu að blandast innbyrðis en hann varaði hinsvegar við því að Evrópubúar blandist kynþáttum utan álfunnar. 

Hegedus hefur nú sent Orban uppsagnarbréf þar sem hún segir að ræðan hefði sæmt sér vel sem ein af ræðum Göbbels áróðursmeistara Nasista. Aðrir hafa tekið í svipaðan streng og mannréttindasamtök hafa mörg gagnrýnt talsmáta forsætisráðherranns. Orban sjálfur segir hinsvegar að orð sín hafi verið tekin úr samhengi.

„Við erum alveg tilbúinn að blandast hvert með öðru, en við viljum ekki verða þjóð blandaðs kynþáttar,“ sagði Orban í ræðu sinni. Orban hefur lengi verið þekktur fyrir óbeit sína á innflytjendum en ræðan á laugardag var kornið sem fyllti mæli Hegedus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×