Þessi nýja tilkynning Gazprom kemur í kjölfar mikils ótta vegna lítils gas flæðis víða um Evrópu en árlegu viðhaldi á Nord Stream leiðslunni lauk 21. júlí síðastliðinn. Leiðslunni var lokað á meðan viðhaldinu stóð og töldu sumir tvísýnt að hún yrði opnuð aftur.
Skortur á gasi olli því að Uniper, stærsti innflutningsaðili Þýskalands á gasi frá Rússlandi var á barmi gjaldþrots.
Volodómír Zelenskí Úkraínuforseti hefur sakað Rússa um að standa í gas-stríði við Evrópu og að endurteknar lokanir á Nordstream leiðslunni séu hugsaðar til þess að hræða Evrópubúa og draga úr andstöðunni við stríðið í Úkraínu.
CNN greinir frá því að bandarísk yfirvöld óttist að Evrópa muni upplifa mikinn skort á gasi í vetur. Erfitt sé fyrir álfuna að fylla á gasbyrgðir þegar flæði um leiðsluna sé eins lítið og raun ber vitni. Möguleiki sé á því að afleiðingar gasleysis í Evrópu muni skila sér til Bandaríkjanna með hækkuðu gas- og rafmagnsverði.
Orkusérfræðingur Hvíta hússins Amos Hochstein hafi verið sendur til Evrópu til þess að skipuleggja megi næstu skref í orkusamstarfi Bandaríkjanna og Evrópu vegna málsins.
Rætt verði á næstu dögum hvort aukin kjarnorkuframleiðsla sé vænleg til þess að vega á móti gasleysinu sem minna flæði um Nord Stream leiðsluna veldur. Ekki sé víst að Evrópa muni eiga nóg gas til þess að duga álfunni í vetur þrátt fyrir stefnu Evrópusambandsins hvað varðar samdrátt á gasneyslu í Evrópu.