Serhiy Bratsjuk, talsmaður hersins í Odesa, greinir frá því á samfélagsmiðlinum Telegram að eldflaugum hafi verið skotið á borgina frá herþotum, án þess að tilgreina fjölda flauga eða tjón. Bratsjuk boðar frekari upplýsingar innan skamms.
Rússar gerðu síðast eldflaugaárás á Odesa á laugardagsmorgun, aðeins degi eftir að hafa skrifað undir samning við Úkraínumenn um að hleypa kornútflutningi aftur af stað þaðan. Í samningum voru ákvæði um að Rússar myndu ekki gera loftárásir á hafnir í Úkraínu svo hægt væri að koma rúmum 20 milljón tonnum af korni og öðrum landbúnaðarvörum út á heimsmarkað. Ráðgert var að þeir flutningar myndu fyrst og fremst fara í gegnum höfn Odesa.
Selenskí Úkraínuforseti sakaði Rússa um villimennsku í kjölfar árásanna og sagði þær sýna að Rússar muni svíkja öll loforð.
Borgarsjtjóri Kharkiv greinir frá því á Telegram að Rússar hafi varpað sprengjum á íbúðahverfi í borginni í nótt. Þá hafi sprengjum verið varpað á íbúða- og verslunarhverfi í borginni um fimmleytið í morgun að staðartíma.
Þá greinir borgarstjóri Mykolaív einnig frá því á Telegram í morgun að miklar sprengingar hafi heyrst í borginni í nótt. Hann hvatti borgarbúa til að leita skjóls í loftvarnarbyrgjum.