Erlent

Stjórnar­and­stæðingur hand­tekinn í Rúss­landi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gozman sést hér til hægri.
Gozman sést hér til hægri. EPA/Sergei Chirikov

Rússneski stjórnmálamaðurinn Leonid Gozman var í dag handtekinn af lögregluþjónum í Moskvu. Gozman er leiðtogi stjórmálaflokksins Bandalag hægriafla.

„Við inngang Frunzenskaya-neðanjarðarlestarstöðvarinnar var hann [Gozman] handtekinn af lögregluþjónum sem starfa á stöðinni,“ segir í færslu Mikhail Biryukov, lögmanns Gozman, á Facebook.

Gozman hefur gagnrýnt Pútín reglulega og skrifaði meðal annars undir undirskriftarlista fyrr á árinu sem hvatti Rússa til að hætta öllum átökum við Úkraínumenn. Þá hefur hann sagt að Pútín hafi skaðað Rússland meira með innrás sinni í Úkraínu en nokkur leiðtogi landsins síðan Stalín var uppi.

Rússneska lögreglan heldur því aftur á móti fram að Gozman hafi ekki tilkynnt yfirvöldum á skikkanlegum tíma að hann væri ríkisborgari Ísrael og því hafi hann verið handtekinn.

Í síðasta mánuði var Gozman settur á lista yfir eftirlýsta Rússa sem grunaðir eru um að vera útsendarar erlends ríkis. Því gátu lögregluþjónar handtekið hann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×