Barcelona þarf að greiða Bayern München 45 milljónir evra, og 5 milljónir evra til viðbótar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fyrir hinn 33 ára gamla Lewandowski sem skoraði 35 mörk í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð.
Einhvern hluta af þessari upphæð nær Barcelona, í sinni miklu fjárhagskrísu, til baka með því að nýta áhugann sem er á pólska markahróknum.
Það er ef til vill til marks um þann áhuga að í verslun Barcelona, eftir að tilkynnt var um kaupin á Lewandowski, seldist bókstafurinn W upp og því um tíma ekki hægt að kaupa treyju merkta honum.
Barcelona have really run out of the letter W because of Lewandowski
— ESPN FC (@ESPNFC) July 19, 2022
(via @forcabarca_ar) pic.twitter.com/1RjU8KRI9c
Þó að Lewandowski hafi látið sjá sig í upphitun Barcelona fyrir leikinn í Bandaríkjunum í nótt þá var hann ekki í leikmannahópi liðsins.
Annar nýr leikmaður liðsins var hins vegar á meðal markaskorara í 6-0 sigrinum því Raphinha, sem kom frá Leeds fyrir 58 milljónir evra, kom að þremur fyrstu mörkunum og skoraði eitt þeirra.
Pierre-Emerick Aubameyang, Ansu Fati, Gavi, Memphis Depay og Ousmane Dembele skoruðu hin fimm mörkin.
Barcelona heldur undirbúningi sínum fyrir næstu leiktíð áfram með því að mæta erkifjendunum í Real Madrid í Las Vegas á laugardag.