Í fréttatilkynningu frá norska knattspyrnusambandinu segir að um sameiginlega ákvörðun þjálfaranna og sambandsins sé að ræða.
Óhætt er að segja að norska landsliðið hafi fengið háðulega útreið á EM en liðið tapaði þar 8-0 fyrir gestgjöfum Englands. Það er stærsta tap í allri sögu Evrópumótsins.
María Þórisdóttir og stöllur hennar í norska liðinu áttu þó enn möguleika á að komast í 8-liða úrslit fyrir lokaleik sinn í riðlinum en töpuðu honum 1-0 gegn Austurríki.
Hinn sænski Sjögren sætti skiljanlega gagnrýni vegna frammistöðunnar á EM, sem var engu skárri en vonbrigðin á EM í Hollandi 2017, og kallað var eftir því að hann stigi frá borði eins og nú er orðin raunin.
„Markmiðin fyrir þetta mót voru skýr og við ætluðum okkur stóra hluti. Úr því að úrslitin voru ekki í samræmi við væntingarnar þá var það rökrétt lausn að leiðir myndi skilja,“ sagði Sjögren í fréttatilkynningu í dag.