„Við vorum mjög góðir fyrsta hálftímann fannst mér, sköpuðum færi. En gerðum mistök, lentum undir og byrjuðum aldrei seinni hálfleikinn. Sýndum þó karakter og komum til baka en við vorum sjálfum okkur verstir í þessum leik,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir tapið á móti ÍBV í dag.
„Fyrsti hálftíminn var mjög góður. Svo í seinni hálfleik vantaði allt flot á boltann, þetta gekk alltof hægt hjá okkur. Um leið og við settum smá tempó í sóknarleikinn þá opnuðum við þá og jöfnuðum verskuldað. Við vorum sjálfum okkur verstir í endann og töpuðum leiknum.“
Heimir gerði breytingu í seinni hálfleik og setti Aron Jóhannsson inná sem skoraði tvö mörk.
„Aron kom inn og stóð sig vel. Við breyttum aðeins, fórum í 4-4-2 og náðum að herja betur á vörnina þeirra. Skiptingarnar hleyptu lífi í leikinn hjá okkur en það breytir því ekki að við byrjuðum ekki seinni hálfleikinn nógu vel.“
Fyrir næsta leik vill Heimir losna við einstaklingsmistök.
„Við þurfum að hætta að vera sjálfum okkur verstir og losa okkur við einstaklings mistök. Svo er líka spurning um að mæta betur skóaðir.“
