Erlent

Dauðs­föllum af völdum sýkla­lyfja­ó­næmra baktería fjölgaði um 15 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjöldi fólks sem lagðist inn með Covid-19 fékk upphaflega sýklalyf þar sem erfitt var að greina á milli kórónuveirusýkingar og lungnabólgu.
Fjöldi fólks sem lagðist inn með Covid-19 fékk upphaflega sýklalyf þar sem erfitt var að greina á milli kórónuveirusýkingar og lungnabólgu. Getty

Dauðsföllum af völdum sýklalyfjaónæmra baktería fjölgaði um 15 prósent í Bandaríkjunum árið 2020, á sama tíma og sýklalyfjum var ávísað til fjölda fólks vegna kórónuveirunnar og sýkinga hjá sjúklingum sem dvöldu langdvölum á heilbrigðisstofnunum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarískra yfirvalda.

Þar kemur sömuleiðis fram að tilvikum þar sem sjúklingar smituðust af bakteríusýkingu á meðan þeir lágu á spítala fjölgaði einnig um 15 prósent.

Af þeim rúmlega 29.400 sem létust af völdum sýklalyfjaónæmra baktería smituðust 40 prósent á spítala.

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál í heiminum en það er tilkomið vegna ofnotkunar sýklalyfja. Hún hefur þau áhrif að bakteríur þróa með sér ónæmi og verða því illviðráðanlegar. Sýklalyf eru ekki sérlega ábatasöm og því hafa lyfjafyrirtækin sýnt því lítinn áhuga að þróa ný lyf til að takast á við hinar ónæmu veirur.

Í frétt Reuters um málið segir að nærri 80 prósent sjúklinga sem voru lagðir inn á sjúkrahús með Covid-19 í Bandaríkjunum árið 2020 hafi verið gefin sýklalyf, jafnvel þótt þau virki ekki gegn veirusýkingum. Þetta má meðal annars rekja til þess hversu erfitt var í upphafi að greina á milli Covid-19 og lungnabólgu.

WHO áætlar að um 1,27 milljón manna látist af völdum sýklalyfjaónæmra baktería á heimsvísu á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×