Ljósið frá þyrpingunni er eldra en jörðin, sem er 4,5 milljarða ára gömul.
Þyrpingin beygir ljós á þá vegu að aðrar stjörnuþokur á bakvið hann verða skýrari. Þúsundir annarra stjörnuþoka eru sýnilegar á bakvið SMACS 0723. Ekki er vitað hvað þær eru gamlar og vonast er til þess að því verði bráðum svarað.
Þrettán milljarðar ára
Bill Nelson, yfirmaður Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna, sagði á viðburði í Hvíta húsinu í kvöld að ljósið frá einum af ljósblettunum í bakgrunni myndarinnar hefði ferðast í rúma þrettán milljarða ára. Í framtíðinni myndi JWST taka myndir af enn fjarlægari hlutum.
Hér er vert að benda á að alheimurinn er talinn um 13,8 milljarða ára gamall.
Myndin, sem hægt er að sjá hér fyrir ofan, er sett saman úr fjölda ljósmynda sem teknar voru á rúmlega tólf tíma tímabili. Ef þú heldur sandkorni í armslengd frá þér og lætur það bera við himinninn, þá ertu að hylja sambærilegt flatarmál af himninum og þessi mynd sýnir.
Einnig er hægt að sjá myndina í hærri upplausn hér.
Sneak a peek at the deepest & sharpest infrared image of the early universe ever taken all in a day s work for the Webb telescope. (Literally, capturing it took less than a day!) This is Webb s first image released as we begin to #UnfoldTheUniverse: https://t.co/tlougFWg8B pic.twitter.com/Y7ebmQwT7j
— NASA Webb Telescope (@NASAWebb) July 11, 2022
Fleiri myndir á morgun
James Webb er stærsti og besti geimsjónauki sem hefur verið framleiddur og er honum meðal annars ætlað að varpa ljósi á uppruna alheimsins og taka hágæðamyndir af fjarlægum stjörnuþokum.
Sjá einnig: Eðlilegt að fólk sé stressað fyrir geimskot James Webb
JWST nemur innrautt ljós og þarf hann að vera gífurlega kaldur til að virka rétt og svo geislun frá honum sjálfum trufli ekki skynjara sjónaukans. Hann á að verða -233 gráðu kaldur (um fjörutíu Kelvin). Skynjarar í sjónaukanum verða einungis -266 gráður eða um sjö kelvin.
Núll kelvin eða -273 gráður kallast alkul og er lægsta fræðilega hitastig alheimsins.
Sjónaukinn er samstarfsverkefni NASA, evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) og kanadísku geimstofnunarinnar. Upprunalega stóð til að sjónaukinn myndi kosta einn til 3,5 milljarða dala og átti að skjóta honum á loft árið 2010. Honum var skotið á loft í fyrra og kostaði í heild um tíu milljarða dala.
Sjá einnig: Sá stærsti og besti lagður af stað
Frekari myndir úr sjónaukanum verða opinberaðar á morgun. Hægt verður að fylgjast með því í beinni útsendingu á Vísi á morgun. Þær munu meðal annars sýna stjörnuþoku í um sjö þúsund ljósára fjarlægð.