Heilsuefling eldri borgara er eitt af þeim flottu verkefnum, sem eru í gangi í Grundarfirði þar sem íbúar á besta aldri fá leiðsögn frá frábærum kennurum hvernig best sé að styrkja líkamann og ekki síður sálina, því það er oft mjög glatt á hjalla í þessum tímum.
„Við erum að æfa tvisvar í viku hér í íþróttahúsinu og tvisvar í viku niðri í líkamsræktinni, fjórum sinnum í viku allt árið,“ segir Rut Rúnarsdóttir, einkaþjálfari. Og Ágústa Einarsdóttir, sem er líka einkaþjálfari bætir við.
„Það er mikil gleði í hópnum og þau eru að gefa okkur mikla gleði og svo erum við að reyna líka að gleðja þau til baka.“
„Þetta er skemmtun fyrst og fremst og maður verður svona aðeins hressari, svona líkamlega og andlega,“ segir Ólafur Guðmundsson. eldri borgari.

„Það er hopp og hí og gaman, félagsskapurinn er góður. Já, það er líka alltaf mikil og góð stemming hérna. Alltaf, yndislegar þessar stúlkur, sem eru með okkur hérna, stórkostlegar,“ segir Runólfur Guðmundsson, eldri borgari.

„Við erum dálítið fimar, sérðu það ekki, það er auðséð langar leiðir“, segir Jónína Kristjánsdóttir, eldri borgari og skellihlær.

„Við erum bæði jákvæð og bjartsýn hérna í Grundarfirði,“ segir Hulda Vilmundardóttir, eldri borgari alsæl með leikfimina og að búa í Grundarfirði.
