Johnson ræddi stuttlega við blaðamenn í dag en hann sagði af sér í síðustu viku, eftir að fjöldi ráðherra og annarra háttsettra embættismanna sagði af sér og lýsti yfir vantrausti á hann sem forsætisráðherra.
Samkvæmt breskum miðlum var hvíslað um það um helgina að Johnson myndi sjálfur sækjast eftir leiðtogaembættinu en það var dregið til baka, enda segir í kosningalögum Íhaldsflokksins að leiðtogi sem hefur sagt af sér megi ekki bjóða sig fram í næstu leiðtogakosningum.
Ellefu vilja hnossið; Kemi Badenoch, Suella Braverman, Rehman Chishti, Jeremy Hunt, Sajid David, Penny Mordaunt, Grant Shapps, Rishi Sunak, Liz Truss, Ton Tugendhat og Nadhim Zahawi.
Johnson sagði við blaðamenn í morgun að hann hygðist stýra skipinu næstu vikurnar, þar til nýr leiðtogi yrði kjörinn, og framfylgja þeirri stefnu sem kjósendur hefðu lagt stuðning sinn við í síðustu kosningum.
Forsætisráðherrann hefur verið gagnrýndur fyrir það bæði af samflokksmönnum sínum og stjórnarandstöðunni að ætla að vera við völd fram í október og Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur hótað því að leggja fram vantrauststillögu á þinginu ef Íhaldsmenn koma Johson ekki sjálfir frá.