Putin Rússlandsforseti og aðrir talsmenn alræðisstjórnarinnar í Kreml hafa verið margsaga um ástæður innrásar þeirra í Úkraínu, allt frá því að þeir séu að koma í veg fyrir þjóðarmorð nasista á rússneskumælandi Úkraínumönnum til þess að Rússsar séu í stríði við Bandaríkjamenn sem beiti Úkraínu fyrir sig. Rússar þurfi því að semja við Bandaríkjamenn um frið í Úkraínu en ekki stjórnvöld í Úkraínu.
Sjá einnig: Segir Rússa rétt að byrja í Úkraínu
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands ítrekaði þetta síðarnefnda á fundi G20 ríkjanna á Bali í dag.

„Við slitum ekki öllu sambandi, það gerðu Bandaríkin. Það er það eina sem ég get sagt. Við eltumst ekki við neinn til að koma á fundi. Vilji þeir ekki viðræður þá er það þeirra val,“ sagði Lavrov.
Putin kenndi Vesturlöndum síðan um stríðið í Úkraínu á fundi með svo kölluðum leiðtogum á rússneska þinginu í gær, en hann hefur algert tangarhald á þinginu eins og öllum öðrum stofnunum og fjölmiðlum í Rússlandi þar sem aðeins skoðun hans er leyfð.

„Okkur er sagt að við hefðum byrjað stríðið í Donbas í Úkraínu. Nei, það voru sameinuð Vesturveldi sem hleptu þessum átökum af stað með því að skipuleggja og styðja ólöglega og vopnaða uppreisn í Úkraínu árið 2014. Síðan hvöttu þau og réttlættu þjóðarmorð gegn íbúum Donbas. Þessi sameinuðu Vesturveldi eru beinir sökudólgar og hvatamenn þeirrar atburðarásar sem nú á sér stað,“ sagði Putin.

Allt frá upphafi innrásarinnar hafa Rússar reynt að mála sig upp sem fórnarlamb útþenslustefnu NATO, þegar þeir eru í raun að ásælast gífurlegar kola-, olíu-og gasauðlindir Úkraínu sem helst er að finna í Donbas.

Þeir hafa stolið þúsundum tonna af korni af Úkraínumönnum og komið í veg fyrir útflutning þeirra og kenna þeim síðan um hungursneyðina sem það er að valda í þriðja heiminum. Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins ræddi málið við aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í dag.
„Rússar standa í vegi fyrir útflutningi korni frá Úkraínu og stuðla þannig að hungri milljóna jarðarbúa. Umsátrinu um hafnir í Svartahafi verður að linna,“ sagði von der Leyen í dag.