Innlent

Sjúkra­tryggingar hækka endur­greiðslu aksturs­kostnaðar nýrna­sjúk­linga

Bjarki Sigurðsson skrifar
Helga Hallgrímsdóttir, formaður Nýrnafélagsins, ásamt hressum félögum í vikulegri göngu Nýrnafélagsins í Laugardal.
Helga Hallgrímsdóttir, formaður Nýrnafélagsins, ásamt hressum félögum í vikulegri göngu Nýrnafélagsins í Laugardal. Aðsend

Þeir nýrnasjúklingar sem þurfa að ferðast milli sveitarfélaga til að komast í blóðskiljun geta nú fengið endurgreitt 95 prósent af aksturskostnaði. Sjúklingar þurfa að fara í blóðskilun þrisvar sinnum í viku í þrjá til fjóra tíma í senn. 

Í fjölda ára hafa þeir nýrnasjúklingar sem neyðast til að ferðast milli sveitarfélaga til að komast í blóðskilun aðeins fengið 75 prósent af þeim kostnaði sem þeir bera við að aka sjálfir milli staða. Þetta þýddi til að mynda að nýrnasjúklingur sem býr á Akranesi, hefur þurft að greiða úr eigin vasa um 1,2 milljónir árlega vegna ferðalaga til og frá Landsspítala. Nýrnafélagið hefur lengi barist fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands hækki þetta endurgreiðslu hlutfall.

Nú hefur sú barátta borið árangur. Sjúkratryggingar hafa breytt reglum sínum og gefið út að lengri ferðir, það er ferðir á milli staða ef viðkomandi býr ekki í því sveitarfélagi þar sem þjónustan er veitt, fæst endurgreitt 95 prósent af ferðakostnaði.

Þetta þýðir jafnframt að ef viðkomandi sjúklingur getur ekki keyrt sjálfur, og þarf að nýta sér akstursþjónustu, á viðkomandi rétt á 95 prósent endurgreiðslu þess kostnaðar. Þetta á aðeins við þá sem eru í lífsbjargandi meðferð.

„Það er Nýrnafélaginu mikið ánægjuefni að þessi breyting hafi orðið, enda mjög mikilvægt skref fyrir félagsmenn,“ segir í tilkynningu frá stjórn Nýrnafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×