Íslenski boltinn

Fram staðfestir kaupin á Brynjari Gauta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson hefur spilað með Stjörnunni frá árinu 2015 en hann verður áfram bláu.
Brynjar Gauti Guðjónsson hefur spilað með Stjörnunni frá árinu 2015 en hann verður áfram bláu. Vísir/Daníel Þór

Miðvörðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson er orðinn leikmaður Fram í Bestu deild karla en félagið staðfesti félagsskiptin inn á miðlum sínum.

Fram komst að samkomulagi við Stjörnuna um kaup á þessum þrítuga reynslubolta sem hefur spilað 207 leiki í efstu deild karls.

Brynjar Gauti var ekki í náðinni hjá Ágústi Gylfasyni í sumar og hafði bara komið við sögu í fjórum leikjum Garðabæjarliðsins og verið aðeins einu sinni í byrjunarliði.

Síðasti leikur hans með Stjörnunni var á móti ÍBV 29. maí síðastliðinn en hann lék á móti Fram í 1-1 jafntefli í byrjun maí. Það er eini byrjunarliðsleikur hans með Stjörnunni í sumar.

Stjórn knattspyrnudeildar Fram bindir miklar vonir við Brynjar Gauta eins og kemur fram í fréttinni á heimasíðu félagsins en Framliðið hefur fengið allt of mikið af mörkum á sig í sumar sem er það fyrsta í efstu deild í átta ár.

Brynjar Gauti er annar reynsluboltinn sem kemur til Fram á stuttum tíma en félagið fékk einnig Almarr Ormarsson frá Val.

Brynjar lék 179 leiki fyrir Garðabæjarfélagið frá 2015-2022 og skoraði í þeim 5 mörk ásamt því að eiga stóran þátt í bikarmeistaratitli félagsins árið 2018. Stjarnan þakkar honum fyrir á sínum miðlum.

„Brynjar hefur verið frábær leikmaður þau ár sem hann hefur verið með okkur og skapað margar eftirminnilegar minningar og ég vil nota tækifærið og þakka honum fyrir hans framlag til félagsins í gegnum árin og um leið óska honum góðs gengis í “hinum” bláa búningnum,“ sagði Helgi Hrannarr, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×