Innlent

Sjötti hvalur vertíðarinnar kominn á land í Hvalfirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá hvalstöðinni í Hvalfirði. Hvalbáturinn Hvalur 8 kominn að bryggju með feng sinn síðastliðinn föstudag.
Frá hvalstöðinni í Hvalfirði. Hvalbáturinn Hvalur 8 kominn að bryggju með feng sinn síðastliðinn föstudag. Egill Aðalsteinsson

Sex langreyðar eru komnar á land í Hvalfirði það sem af er hvalvertíðinni og segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, það ágætis veiði miðað við að bræla hafi verið á miðunum fyrstu dagana.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir sem Egill Aðalsteinsson, kvikmyndatökumaður fréttastofu, tók í Hvalfirði síðdegis á föstudag þegar hvalbáturinn Hvalur 8 var að koma með langreyði númer tvö að landi í hvalstöðinni, tíu klukkustundum eftir að Hvalur 9 kom þangað með fyrstu langreyðina.

Hvalur 8 við bryggju hvalstöðvarinnar. Langreyðurin sést við síðu skipsins,Egill Aðalsteinsson

Aðfararnótt sunnudags kom nían með þriðju langreyðina að landi og í gær kom áttan með tvær. Síðdegis í dag kom svo Hvalur 9 inn í Hvalfjörð með sjötta dýrið sem veiðist á þessari vertíð og unnu starfsmenn Hvals hf. fram á kvöld við að skera hvalinn á vinnsluplaninu.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segir sex hvali á fimm dögum ágætis veiði í ljósi þess að bræla hafi verið á miðunum fyrstu dagana. Hann segir hvalina hafa veiðst suður af Reykjanesi, suðvestur af Garðskaga og vestur af Faxaflóa. Þeir sem næstir voru landi veiddust um 120 sjómílur undan Reykjanesi en algengt er að þeir veiðist um 150 mílur frá landinu.

Í hvalstöðinni eru um 120 manns á störfum við hvalvinnsluna og auk þeirra eru hátt þrjátíu manns í áhöfnum hvalbátanna. Margir starfsmanna eru núna á sinni fyrstu hvalvertíð og því þykir ekki verra að vertíðin fari rólega af stað meðan mannskapurinn er að þjálfast.

Hvalbátarnir Hvalur 6 og Hvalur 7 sigla tæpast framar til hvalveiða.Egill Aðalsteinsson

Til hliðar við hvalstöðina má sjá hvalbátana Hval 6 og Hval 7 uppi í fjöru en þangað var þeim siglt til geymslu fyrir ellefu árum. Þeir höfðu þá ekkert verið í notkun í aldarfjórðung eða frá því þeim var sökkt í Reykjavíkurhöfn árið 1986 í skemmdarverkaárás Sea Shepherd-samtakanna.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Segir það kjaftæði að ferðamenn sniðgangi Ísland vegna hvalveiða

Fyrsta langreyður vertíðarinnar, og jafnframt sú fyrsta sem skotin er við Ísland í nærri fjögur ár, veiddist um miðjan dag vestur af landinu. Búist er við að hvalurinn verði dreginn á land í Hvalfirði á morgun en þar var í kvöld byrjað að kynda undir kötlunum.

„Kristján Loftsson búinn að einangrast“

Hvalbáturinn Hvalur 9 kom með fyrstu langreyðina á þessari vertíð að landi í Hvalfirði í morgun. Hún reyndist átján metra löng og veiddist djúpt út af Faxaflóa um miðjan dag í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×