Erlent

Maxwell sögð á sjálfsvígsvakt í fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeffrey Epstein (t.v.) og Ghislaine Maxwell (t.h.) voru um tíma par en hún vann síðan fyrir hann um árabil. Hún var dæmd fyrir að útvega honum ungar stúlkur til að misnota.
Jeffrey Epstein (t.v.) og Ghislaine Maxwell (t.h.) voru um tíma par en hún vann síðan fyrir hann um árabil. Hún var dæmd fyrir að útvega honum ungar stúlkur til að misnota. Vísir/EPA

Lögmaður Ghislaine Maxwell, sem var sakfelld fyrir aðild að glæpum Jeffreys Epstein gegn konum, segir að hún sé sjálfsvígsvakt í fangelsinu í Brooklyn þar sem henni er haldið. Til stendur að ákvarða refsingu hennar á þriðjudag en lögmaðurinn segir að það kunni að frestast.

Maxwell var flutt í einangrun í fangelsinu eftir að hún var sett á sjálfsvígsvakt. Bobbi Sternheim, lögmaður hennar, segir að hún geti ekki búið sig undir ákvörðun refsingarinnar á viðunandi hátt í bréfi til dómarans í málinu. Hann fullyrðir að fatnaður hennar, tannbursti, sápa og skjöl hafi verið tekin af henni.

Neitaði lögmaðurinn að Maxwell væri haldin sjálfsvígshugsunum og fullyrti að sálfræðingur sem skoðaði hana í gær hafi komist að sömu niðurstöðu, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Saksóknarar hafa farið fram á að minnsta kosti þrjátíu ára fangelsisdóm yfir Maxwell þar sem hún hafi ekki sýnt neina iðrun gjörða sinna. Hún var sakfelld fyrir mansal og að finna og tæla stúlkur sem Epstein misnotaði svo á árunum 1994 til 2004.

Verjandi Maxwell vill að ákvörðun refsingar verði frestað ef hún fær ekki að undirbúa sig nægilega á meðan hún er á sjálfsvígsvakt. Hún hefur verið í fangelsi frá því að hún var handtekin í júlí 2020.

Sjö konur sem saka Maxwell um að hafa hjálpað Epstein að ræna þær æskunni skrifuðu dómaranum í málinu bréf og báðu hann um að hafa þjáningar þeirra í huga við ákvörðun refsingar hennar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fjórar konu báru vitni við réttarhöldin yfir Maxwell og lýstu þær hvernig Epstein og Maxwell hefðu misnotað þær á nokkrum stöðum um áratugslangt skeið.

Epstein svipti sig lífi í fangelsi í New York í ágúst 2019. Hann beið þá þess að réttað yrði yfir honum vegna ákæru fyrir mansal.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×