Innlent

Hvetja Íslendinga í Osló til að láta vita af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk faðmast við lögregluborða í kringum vettvang skotárásarinnar í miðborg Oslóar í morgun.
Fólk faðmast við lögregluborða í kringum vettvang skotárásarinnar í miðborg Oslóar í morgun. Vísir/EPA

Íslenska sendiráðið í Osló hvatti Íslendinga í borginni til að láta aðstandendur sína vita af sér í morgun. Tveir voru skotnir til bana í mögulegri hryðjuverkaárás í skemmtanahverfi Oslóar í nótt.

Karlmaður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu eftir að hann hóf skothríð fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks á öðrum tímanum að staðartíma í nótt. Tveir eru látnir og tíu særðir. Gleðigöngu sem átti að fara fram í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar að ráðleggingum lögreglu.

Í Facebook-færslu í morgun sagðist íslenska sendiráðið í Osló fylgjast vel með framvindu mála án þess þó að vísa sérstaklega til skotárásarinnar. Hvatti það Íslendinga í borginni til að láta aðstandendur sína vita af sér eða hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónust utanríkisráðuneytisins.

Þá hvatti sendiráðið Íslendinga til þess að virða lokanir og tilmæli yfirvalda í Osló og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum. Benti það á að mikið álag væri á símkerfi borgarinnar og því væri best að nota samfélagsmiðla til þess að láta vita af sér.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði hug sinn hjá fórnarlömbum árásarinnar og fólki í Osló eftir tíðindi næturinnar. Sendi hann innilegar samúðarkveðjur til Raymonds Johansen, borgarstjóra Oslóar, í tísti í morgun.

„Stöndum saman gegn hatri,“ tísti borgarstjóri.

Í sama streng tók Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata.

„Hugur minn er í dag hjá íbúum Osló og hinsegin samfélaginu þar. Stöndum saman gegn bakslaginu. Hatrið mun ekki sigra,“ tísti hún.


Tengdar fréttir

Árásarmaðurinn áður komist í kast við lögin

Karlmaður á fimmtugsaldri sem er sakaður um morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk með skotárás í miðborg Oslóar í nótt hefur ítrekað komist í kast við lögin. Tilgáta lögreglu er að hann hafi verið knúinn áfram af hatri.

Rann­saka skot­á­rásina í Osló sem mögu­legt hryðju­verk

Norska lögreglan segist rannsaka hvort að mannskæð skotárás við skemmtistað hinsegin fólks í miðborg Oslóar í nótt hafi verið hryðjuverkaárás. Gleðigöngu Oslóar sem átti að fara fram í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar.

Tveir látnir eftir skotárás í miðbæ Oslóar

Tveir eru látnir og að minnsta kosti 19 særðir eftir skotárás á skemmtistaðnum London Pub í miðbæ Oslóar. Lögreglan hefur handtekið einn mann vegna árásarinnar og talið er að hann sé einn að verki. London Pub er vinsæll hinsegin-bar en á laugardaginn verður gleðiganga Oslo Pride gengin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×