Neytendur

Megavikupítsur orðnar hundrað krónum dýrari

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Útibú Domino's við Skúlagötu.
Útibú Domino's við Skúlagötu. Vísir/Vilhelm

Pítsa á matseðli í Megaviku, tilboðsviku Domino‘s, hefur hækkað í verði um eitt hundrað krónur. Pítsan kostaði lengi vel 1.590 krónur, hækkaði þá í 1.690 og var verðið enn hækkað um hundrað krónur í þessari viku og stendur nú í 1.790 krónum.

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's, staðfesti verðhækkunina í samtali við Vísi. Hann segir mikla hækkun á aðföngum síðastliðna mánuði skýra hækkunina.

„Það er ekki útlit fyrir að þessar hækkanir gangi til baka, að minnsta kosti í náinni framtíð, og við erum í rauninni bara að bregðast við því. Megavikan hefur auðvitað verið langt undir verðlagsþróun í fleiri ár og er það enn þá. Ef hún hefði átt að fylgja verðlagsþróun frá 1994, þegar Megavikan hefur göngu sína, væri hún í kringum 3.000 krónur. “

Hann segir fyrirtækinu ávallt þykja leiðinlegt að hækka verðið en stundum sé það nauðsynlegt til að fylgja markaðnum.

„Við erum hins vegar nokkuð ánægð með verðið og það sem fólk fær út úr því. 1.790 krónur fyrir pítsu á matseðli hjá okkur er ennþá frábær díll í samanburði við annað á markaðnum.“

Magnús segir aðrar verðhækkanir jafnframt vera í skoðun.

„Aðstæður á markaðnum eru bara mjög sérstakar og allt aðrar en við reiknuðum með. Verðhækkanir á aðföngum hafa í raun farið langt fram úr áætlunum,“ sagði Magnús að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×