Erlent

Rekja byssu­kúluna sem banaði frétta­konu til Ísraela

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá minningarstund um Shireen Abu Akleh í Washington-borg í Bandaríkjunum. Hún var skotin til bana þar sem hún fylgdist með aðgerð Ísraelshers á Vesturbakkanum í maí.
Frá minningarstund um Shireen Abu Akleh í Washington-borg í Bandaríkjunum. Hún var skotin til bana þar sem hún fylgdist með aðgerð Ísraelshers á Vesturbakkanum í maí. Vísir/EPA

Byssukúlan sem banaði Shireen Abu Akleh, fréttakonu al-Jazeera á Vesturbakkanum í síðasta mánuði kom frá stað þar sem ísraelskur herbílalest var stödd. Rannsókn New York Times bendir til að sérsveitarmaður hafi skotið hana til bana.

Abu Akleh lést þegar hún var skotin í höfuðið þegar hún fylgdist með aðgerðum Ísraelshers í Jenín á Vesturbakkanum 11. maí. Palestínsk yfirvöld sögðu að ísraelskur hermaður hefði myrt hana vísvitandi. Ísraelsher sagði mögulegt að hermaður hefði skotið hana fyrir misgáning eða að palestínskur byssumaður hefði skotið hana. Niðurstaða bráðabirgðarannsóknar hersins var að ekki væri hægt að segja afdráttarlaust til um uppruna kúlunna sem banaði fréttakonunni.

Rannsókn New York Times á atburðarásinni þegar Abu Akleh var skotin leiddi í ljós að engir vopnaðir Palestínumenn hefðu verið nærri henni þegar hún var skotin. Það stangist á við skýringar Ísraelshers að ef hermaður skaut hana fyrir mistök þá hafi það verið vegna þess að hann ætlaði að skjóta á vopnaðan Palestínumann.

Þá reyndist ísraelskur hermaður sem skaut á Abu Akleh og fleiri blaðamenn hafa skotið meira en þrefalt fleiri skotum en herinn viðurkenndi. Bandaríska blaðið fann þó engar vísbendingar um að hermaðurinn sem hleypti af hafi vitað hver Abu Akleh var eða hann hafi ætlað að skjóta hana sérstaklega. Þá liggi ekki fyrir hvort að hermaðurinn hafi séð að hún og félagar hennar væru í vestum sem voru merkt fjölmiðlum.

AP-fréttastofan hafði áður sagt að rannsókn hennar renndi stoðum undir ásakanir Palestínumanna og félaga Abu Akleh að ísraelskur hermaður hefði skotið hana.

Þegar Abu Akleh var borin til grafar í Austur-Jerúsalem hrintu ísraelskir óeirðarlögreglumnenn og börðu syrgjendur þannig að kisturberar misstu næstum kistu hennar 14. maí. Niðurstaða ísraelsku lögreglunnar var að lögreglumennirnir hefðu gerst sekir um brot í starfi. Yfirmönnum þeirra verður þó ekki refsað alvarlega.


Tengdar fréttir

Lögreglumenn börðu syrgjendur í útför blaðakonu

Ísraelskir lögreglumenn börðu syrgjendur með kylfum í útför blaðakonu al-Jazeera sem var skotin til bana á Vesturbakkanum á miðvikudag. Kistuberar misstu kistu hennar stuttlega vegna atgangsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×