Fótbolti

„Var orðinn hræddur um að markið myndi ekki koma“

Atli Arason og Hjörvar Ólafsson skrifa
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Vísir/Diego

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var létt þegar Atli Sigurjónsson skoraði jöfnunarmark KR-inga á 90. mínútu í 1-1 jafntefli gegn Stjörnunni í kvöld en stuttu áður hafði Theodór Elmar brennt af vítaspyrnu.

„Það var mjög sætt að sjá jöfnunarmarkið, sérstaklega þar sem við höfðum verið mun meira með boltann allan leikinn og skapað fleiri færi. Ég var orðinn hræddur um að markið myndi ekki koma, sérstaklega þegar Theódór Elmar brenndi af vítinu,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í viðtali við Vísi eftir leik.

Stjarnan komst marki yfir strax á 14. mínútu leiksins og virtist ætla að halda í eins marks forskot, lágu til baka og beittu skyndisóknum. Rúnar líkti leiknum í kvöld við handboltaleik.

„Þeir lögðust til baka í þessum og við þurftum að sýna mikla þolinmæði. Þetta var á köflum eins og stimplun í handbolta. Svo var bara spurning um að finna glufur á varnarleiknum eins og Valdimar Grímsson gerði svo vel í handboltanum hér í den,“ sagði hann í léttum tón.

Rúnar kveðst sáttur með stigið en þó ósáttur við hversu mörg færi fóru forgörðum hjá KR-ingum í seinni hálfleik.

„Við vorum skarpari í okkar aðgerðum í seinni hálfleik og náðum að opna þá betur. Við fengum fín færi til þess að skora fleiri mörk og fjölmargar fyrirgjafarstöður sem við hefðum getað nýtt betur. Það er fínt að fá allavega stig úr því sem komið var,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×