Innlent

Lúð­vík fær ekki að á­frýja dómi í meið­yrða­máli sínu til Hæsta­réttar

Kjartan Kjartansson skrifar
Ummæli Óðins í Viðskiptablaðinu vörðuðu aðkomu Lúðvíks Bergvinssonar (t.h.) að sátt sem N1 gerði við Samkeppniseftirlitið um kaup á Festi.
Ummæli Óðins í Viðskiptablaðinu vörðuðu aðkomu Lúðvíks Bergvinssonar (t.h.) að sátt sem N1 gerði við Samkeppniseftirlitið um kaup á Festi. Vísir/samsett

Hæstiréttur hafnaði ósk Lúðvíks Bergvinssonar um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn ritstjóra Viðskiptablaðsins og útgáfufélags þess. Málið var ekki talið hafa verulegt almennt gildi.

Lúðvík krafðist ómerkingar á þremur ummælum sem birtust í Viðskiptablaðinu 8. apríl árið 2020 og síðar á vefsíðu blaðsins. Ummælin birtust í nafnlausa skoðanadálkinum Óðni. 

Vörðuðu ummælin störf Lúðvíks sem óháðs kunnáttumanns með framkvæmd sáttar sem N1 gerði við Samkeppniseftirlitið um kaup á Festi. Lagði höfundur dálksins til að réttar væri að Festi kærði Lúðvík fyrir að gefa út tilhæfulausa reikninga. Lúðvík taldi þetta ærumeiðandi mógðanir og aðdróttanir. Ummælin væru ósönn og tilhæfulaus og til þess ætluð að sverta æru hans.

Lúðvík tapaði málinu fyrst og Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan í Landsrétti. Í beiðni sinni um að fá að áfrýja málinu til Hæstaréttar byggði hann á því að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi, meðal annars um mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir.

Úrlitin vörðuðu einnig rétt hans til æruverndar og þá teldi hann að dómur Landsréttar hefði bersýnilega verið rangur að efni til.

Á þetta féllst Hæstiréttur ekki. Hvorki væri hægt að líta svo á að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi né að þau vörðuðu sérstaklega mikilvæga hagsmuni Lúðvíks. Þá yrði ekki séð að dómur Landsréttar hefði verið bersýnlega rangur. Beiðni Lúðvíks var því hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×